Handbolti

„Heiður að danska sambandið hafi leitað til mín“

Sindri Sverrisson skrifar
Arnór Atlason er aðstoðarþjálfari Álaborgar sem átt hefur afar góðu gengi að fagna.
Arnór Atlason er aðstoðarþjálfari Álaborgar sem átt hefur afar góðu gengi að fagna. MYND/AALBORG

„Það er gaman að hafa aftur eitthvað að gera í landsliðspásunum,“ sagði Arnór Atlason léttur í bragði í Sportinu í dag þar sem hann ræddi um sitt nýja starf sem aðalþjálfari U18-landsliðs pilta í handbolta í Danmörku.

Arnór hefur verið aðstoðarþjálfari hjá meistaraliði Álaborgar síðustu tvö ár og sinnir því starfi áfram samhliða sínu fyrsta aðalþjálfarastarfi.

„Það eru kannski þrjár vikur síðan að ég fékk fyrsta samtalið frá íþróttastjóranum og svo höfum við rætt þetta fram og til baka. Þar sem að ég er í öðru starfi þurfti fyrst og fremst að fá leyfi þar, og svo velta þessu fyrir mér. En ég var strax mjög spenntur fyrir þessu,“ sagði Arnór.

„Það er heiður að danska sambandið hafi leitað til mín og það sýnir að það fer gott orð af manni eftir þessi tvö ár hjá Álaborg,“ sagði Arnór. Hjá U18-landsliðinu leysir hann af hólmi Steffan Madsen, sem er aðalþjálfari Álaborgar.

„Aðalþjálfarinn hérna hjá Álaborg er búinn að vera í þessu starfi síðustu 4-5 ár og hann hættir núna í sumar. Þá fóru þeir bara í næsta mann. Forráðamenn Álaborgar voru bara mjög ánægðir fyrir mína hönd og lögðu ekki neina steina í götuna,“ sagði Arnór sem gerði samning til tveggja ára við danska sambandið.

Klippa: Sportið í dag - Arnór tekur við U18 liði Danmerkur

Sportið í dag er á dagskrá á Stöð 2 Sport alla virka daga klukkan 15.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×