Körfubolti

Bjóst ekki við því að vera látinn fara frá Val

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ragnar skoraði 6,5 stig og tók 5,0 fráköst að meðaltali í leik á síðasta tímabili.
Ragnar skoraði 6,5 stig og tók 5,0 fráköst að meðaltali í leik á síðasta tímabili. vísir/bára

Körfuboltamaðurinn Ragnar Nathanaelsson segist ekki hafa átt von á því að vera látinn fara frá Val. Í dag var greint frá því að Ragnar og Austin Magnus Bracey væru farnir frá félaginu.

„Ég bjóst alls ekki við þessu. Ég var bara mjög spenntur fyrir nýju tímabili með Val, sérstaklega eftir að Finnur [Freyr Stefánsson] kom. Ég bjóst við því að framtíð mín hjá Val yrði lengri en þetta. En auðvitað hugsar maður um þetta þegar nýr þjálfari kemur. Hann kemur með sínar hugmyndir,“ sagði Ragnar í samtali við Kjartan Atla Kjartansson í Sportinu í dag.

Hann ætlar að halda áfram að spila en er ekkert að flýta sér að finna nýtt lið.

„Ég stefni á að vera áfram í körfu. Það er bara spurning hvar. Það eru einhverjir búnir að hafa samband en ég er alveg rólegur. Það er bara 7. maí, allt sumarið eftir og ég á von á mínu fyrsta barni núna. Ég ætla að klára þann pakka fyrst og svo kemur körfuboltinn í haust,“ sagði Ragnar.

Hann lék með Val í tvö ár og segist hafa notið þess tíma þótt gengið inni á vellinum hafi verið upp og ofan.

„Þetta er geggjað félag og ótrúlega flott umgjörð. Það er haldið vel utan mann,“ sagði Ragnar.

Auk Vals hefur hann leikið með Hamri, Þór Þ. og Njarðvík hér á landi. Hann lék einnig sem atvinnumaður í Svíþjóð um tíma.

Klippa: Sportið í dag - Raggi Nat yfirgefur Val

Sportið í dag er á dagskrá á Stöð 2 Sport alla virka daga klukkan 15.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×