Handbolti

Sigurbergur leggur skóna á hilluna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sigurbergur í bikarúrslitaleik ÍBV og Stjörnunnar í mars. Það var hans síðasti leikur á ferlinum.
Sigurbergur í bikarúrslitaleik ÍBV og Stjörnunnar í mars. Það var hans síðasti leikur á ferlinum. vísir/daníel

Handboltamaðurinn Sigurbergur Sveinsson hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna. Hann greindi frá þessu í Sportinu í dag.

Sigurbergur, sem er 32 ára, spilaði með ÍBV síðustu fjögur ár ferilsins. Hann gat lítið leikið með ÍBV í vetur vegna meiðsla en tók þó þátt í bikarúrslitaleiknum þar sem Eyjamenn sigruðu Stjörnumenn, 26-24. Það reyndist síðasti leikur Sigurbergs á ferlinum.

Klippa: Sportið í dag - Sigurbergur hættur í handbolta

Hann er uppalinn hjá Haukum og lék með liðinu til 2010 þegar hann fór til Rheinland í Þýskalandi. Hann lék einnig með þýska liðinu Hannover-Burgdorf og Basel í Sviss áður en hann sneri aftur í Hauka 2012.

Sigurbergur í leik gegn Danmörku á HM í Katar fyrir fimm árum.vísir/epa

Sigurbergur lék með Erlangen í Þýskalandi tímabilið 2014-15 og Team Tvis Holstebro í Danmörku 2015-16 áður en hann kom aftur heim og fór til ÍBV.

Hann varð þrisvar sinnum Íslandsmeistari með Haukum og einu sinni með ÍBV. Sigurbergur vann bikarkeppnina fjórum sinnum, tvisvar með Haukum og tvisvar með ÍBV. Þá varð hann í fjórgang deildarmeistari með Haukum og einu sinni með ÍBV.

Sigurbergur lék yfir 50 landsleiki og fór með íslenska landsliðinu á HM 2011 og 2015. 

Sportið í dag er á dagskrá á Stöð 2 Sport alla virka daga klukkan 15.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×