Viðskipti innlent

WOW Air leigir hús­næði fyrir væntan­lega sölu­skrif­stofu í Was­hington

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Væntanleg söluskrifstofa WOW Air í Foggy Bottom hverfinu í Washington D.C.
Væntanleg söluskrifstofa WOW Air í Foggy Bottom hverfinu í Washington D.C. aðsend

WOW Air hefur tekið húsnæði á leigu í Washingtonborg í Bandaríkjunum og merkt það félaginu. Til stendur að opna þar söluskrifstofu þegar félagið mun hefja flug á milli Washington og Keflavíkur. Þetta staðfestir Gunnar Steinn Pálsson, almannatengill félagsins, í samtali við fréttastofu Vísis.

„Þetta er húsnæði sem búið er að taka á leigu í hverfi sem heitir Foggy Bottom í miðborg Washingon. Þetta er í raun ekkert annað en húsnæði sem bíður þess að þarna opni þegar þar að kemur söluskrifstofa,“ segir Gunnar. „Það var ákveðið að taka þetta á leigu og merkja þetta þangað til það kæmi þarna söluskrifstofa eða einhvers konar kaffihús.“

Hann segir væntanlega söluskrifstofu vonandi opna innan nokkurra vikna en Gunnar hefur áður sagt að vonast sé til þess að WOW Air byrji að fljúga innan nokkurra vikna frekar en mánaða.

„Við ætlum að byrja að fljúga á milli Keflavíkur og Washington þannig að það er ekki ólíklegt að það skjóti upp kollinum söluskrifstofa í Reykjavík. Það er ekki ólíklegt en það hefur ekki verið ákveðið,“ segir Gunnar.

Hann segir að endurreisnarferlið hafi reynst tímafrekara en gert var ráð fyrir en allt sé þó á réttri leið með endurreisn félagsins. „Þetta er allt saman á réttri leið en þetta er ekki á þeim hraða sem við héldum í haust að gæti verið í þessu en við förum í loftið.“

Tafirnar hafi orsakast af ýmsum ástæðum en þá hafi sérstaklega verið flóknara að endurreisa fallið flugfélag en gert var ráð fyrir og svo hafi samkeppnisumhverfið breyst töluvert. „Lággjaldaflugfélög hafa verið að reifa seglin eða jafnvel að leggja upp laupana og það hefur opnað ný tækifæri sem menn hafa viljað skoða. Þannig að bæði hefur þetta verið tímafrekara og fleiri möguleikar sem menn hafa viljað skoða.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×