Erlent

Nashyrningskálfur kom í heiminn á aðfangadagskvöld

Kjartan Kjartansson skrifar
Litli kálfurinn verður ekki til sýnis í garðinum fyrr en í vor en í millitíðinni hefur dýragarðurinn birtir myndir af honum á samfélagsmiðlum.
Litli kálfurinn verður ekki til sýnis í garðinum fyrr en í vor en í millitíðinni hefur dýragarðurinn birtir myndir af honum á samfélagsmiðlum. AP/Kaiti Chritz/Potter Park Zoo

Starfsfólk dýragarðs í Michigan í Bandaríkjunum vörðu aðfangadagskvöldi í að taka á móti svörtum nashyrningskálfi. Afar fátítt er að svartir nashyrningar fæðist í haldi en tegundin er í bráðri útrýmingarhættu.

Kálfurinn er karlkyns og hefur enn ekki fengið nafn. Móðir hans, Doppsee, er tólf ára gömul. Þetta er í fyrsta skipti sem svartur nashyrningur fæðist í Potter Park-dýragarðinum í Lansing í Michigan í hundrað ára sögu hans, að sögn New York Times.

Að meðaltali fæðast tveir svartir nashyrningar í dýragörðum í Bandaríkjunum á ári. Um fimmtíu eru í dýragörðum sem njóta viðurkenningar Landssambands dýragarða og sædýrasafna í Bandaríkjunum.

Stofn svartra nashyrninga skrapp saman um 98% á milli 1960 og 1995 og taldi þá aðeins um 2.500 dýr. Síðan þá hefur stofninn tvöfaldast að stærð en enn er talin hætta er á að svörtum nashyrningum verði endanlega útrýmt vegna ólöglegra veiða og eyðingar búsvæða þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×