Erlent

Mun nýta vikuna í að krefjast nýrrar þjóðaratkvæðagreiðslu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra heimastjórnar Skotlands.
Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra heimastjórnar Skotlands. GETTY/JEFF J MITCHELL

Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra skosku heimastjórnarinnar, ítrekaði í dag á skoska þinginu að hún hyggðist krefjast þess að haldin yrði önnur þjóðaratkvæðagreiðsla um sjálfstæði Skotlands frá Bretlandi.

Er hún ávarpaði þingmenn í dag sagði Sturgeon að hún hyggðist leggja fram formlega kröfu þannig að halda mætti aðra þjóðaratkvæðagreiðsla á næsta ári. Skotar greiddu atkvæði um sjálfstæði árið 2014, þá sögðu 55 prósent nei og 44,7 prósent já.

Síðan þá hefur þó ýmislegt gerst og ber þar hæst að nefna Brexit, áætlaða útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Fastlega er gert ráð fyrir því að Boris Johnson takist að ljúka henni á næsta ári, eftir að hann tryggði sér meirihluta á breska þingingu eftir þingkosningarnar í síðustu viku.

Meirihluti Skota er hins vegar mótfallinn Brexit en í Brexit-þjóðaratkvæðagreiðslunni árið 2016 voru 62 prósent Skota mótfallnir Brexit, 38 prósent hlynntir.

Útkoma kosninganna í Skotlandi. Skoski þjóðarflokkurinn fékk 48 af 59 þingsætum í Skotlandi.vísir

Sturgeon og flokkur hennar, Skoski þjóðarflokkurinn, unnu stórsigur í bresku þingkosningunum í síðustu viku og skipa þingmenn flokksins nú 48 af 59 sætum Skotlands í neðri deild breska þingsins.

Sturgeon hefur túlkað úrslitin sem skýrt umboð frá Skotum um að krefjast eigi nýrrar þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands.

„Þetta eru kaflaskil í sögu Skotlands,“ sagði Sturgeon við þingmenn í dag. „Því mun ég í þessari viku stíga þau skref sem þarf til að tryggja rétt Skota á vali.“

Forsætisráðherra Bretlands hefur hins vegar þegar gefið út tilkynningu þess efnis að hann sé mótfallinn annarri þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands.


Tengdar fréttir

Sterk staða Johnsons eftir kosningarnar

Boris Johnson verður áfram forsætisráðherra Bretlands eftir sigur Íhaldsflokksins í þingkosningum gærdagsins. Hann lofaði því í dag að klára útgöngumálið og má því búast við því að Bretar gangi úr Evrópusambandinu í næsta mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×