Erlent

Skoða hvort flug­slys í í­búða­hverfi í Sví­þjóð hafi borið að með sak­næmum hætti

Eiður Þór Árnason skrifar
Um var að ræða eins hreyfils Diamond DA-20 flugvél.
Um var að ræða eins hreyfils Diamond DA-20 flugvél. Getty/aviation-images.com
Flugmaður lést þegar lítil flugvél hrapaði í íbúðahverfi í bænum Ronneby í Suður-Svíþjóð í gær. Slysið átti sér stað síðdegis á fjórða tímanum að staðartíma og er vélin sögð hafa skollið til jarðar í heimreið um tíu metrum frá íbúðarhúsi.

Enginn annar slasaðist á jörðu niðri en flugmaðurinn er sagður hafa verið einn á ferð. Fréttastofa sænska ríkisútvarpsins SVT greinir frá þessu en RÚV greindi fyrst frá íslenskra miðla.

Lögreglan í Svíþjóð hefur nú gefið út að grunur sé um að slysið hafi borið að með saknæmum hætti og að flugmaðurinn sé grunaður um að hafa lagt öryggi fólks í hættu. Fjölmiðlafulltrúi lögreglunnar sagði nú í morgun að málið verði í fyrstu rannsakað sem sjálfsvíg en einnig verði skoðað til hlítar hvort að brot hafi verið framin.

SVT segir að nokkur nálæg hús í grennd við slysið hafi verið rýmd í gær vegna mögulegrar eldhættu.

Íbúi í nágrenninu lýsti því að hann hafi séð flugvélina fljúga mjög lágt stuttu áður en hann heyrði háværan hvell. Þegar hann sneri sér við segist hann hafa séð mikinn reyk stíga til himins í hundrað metra fjarlægð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×