Innlent

Konan sem lést í árásinni í London var 23 ára fyrrum nemi við Cambridge

Andri Eysteinsson skrifar
Saskia Jones og Jack Merritt létust í árásinni.
Saskia Jones og Jack Merritt létust í árásinni. Mynd/MetPolice
Breskir fjölmiðlar hafa nú nafngreint bæði fórnarlömb stunguárásarinnar á Lundúnarbrú síðasta föstudag. Áður hafði verið greint frá nafni lögfræðingsins Jack Merritt en nú hefur lögreglan gefið út að hitt fórnarlamb Usman Khan hafi verið hin 23 ára gamla Saskia Jones. BBC greinir frá.

Jones hafði líkt og Merritt stundað nám við Cambridge og starfaði í sjálfboðaliðastarfi fyrir samtökin Learning Together. Samtökin skipulögðu ráðstefnu sem árásarmaðurinn sat áður en hann framdi voðaverkin síðast föstudag. Ráðstefnan var haldin til að fagna fimm ára afmæli samtakanna.

Fjölskylda Jones minntist hennar í yfirlýsingu. Í yfirlýsingunni sagði að Saskia Jones hafi verið fyndin og góð manneskja sem hafði jákvæð áhrif á fólkið í kringum hana.

Rektor Cambridge-háskólans, Stephen Toope, minntist fyrrum nemenda sinna og sagðist vera eyðilagður yfir því að hin látnu hafi verið Cambridge-nemar.

Þrír til viðbótar slösuðust af völdum Khan, tveir þeirra dvelja enn á sjúkrahúsi en einum hefur verið leyft að snúa aftur heim.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×