Viðskipti innlent

Ekkert bólar á viðbrögðum vegna túlípana

Ari Brynjólfsson skrifar
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.
Ekkert bólar á viðbrögðum atvinnuvegaráðuneytisins vegna erindis Félags atvinnurekenda um niðurfellingu tolla á túlípönum. Enga túlípana er að fá í landinu þar sem innlendir framleiðendur geta einungis boðið upp á þá frá desember til páska.

FA sendi ráðgjafarnefnd um inn- og útflutning landbúnaðarvara erindi í byrjun októbermánaðar um niðurfellingu tolla, en kveðið er á um hana í búvörulögum ef skortur er á vöru innanlands. Atvinnuvegaráðuneytið sagði fyrir tveimur vikum að það myndi svara erindinu, en ekkert svar hefur borist.

„Núna er staðan sú að rúmlega mánuði eftir að ráðuneytið fékk erindi vegna skorts hefur það enn ekki svarað. Í svona málum, þar sem það er skortur á vörum á markaði, þá þarf eðli málsins samkvæmt að bregðast hratt við,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA.

„Við vonum náttúrlega að hér sé ekki um það að ræða sem ráðuneytið hefur stundum áður gert, að draga óþægileg mál á langinn og vona að þá komi innlend framleiðsla á markað þannig að það þurfi ekki að leyfa innflutning. Það er hins vegar nokkuð ljóst að löggjafinn ætlaði þessu kerfi ekki að virka þannig.“




Tengdar fréttir

Vilja vinna bug á túlípanaskorti

Afskornir túlípanar eru ófáanlegir á Íslandi þessa dagana. Það þarf þó ekki að koma að öllu leyti á óvart því innlendir framleiðendur geta bara boðið upp á þessi vinsælu blóm frá desembermánuði til páska.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×