Erlent

Kveikti í sjálfum sér vegna bágrar fjárhagsstöðu

Sylvía Hall skrifar
Frá samstöðumótmælum.
Frá samstöðumótmælum. Vísir/EPA
Hópur nemenda mótmælti á götum franskra borga vegna stöðu ungs fólks í landinu. Mótmælin voru í því skyni að sýna samstöðu með 22 ára gömlum manni sem reyndi að fremja sjálfsvíg á föstudag vegna gífurlega fjárhagslegra örðugleika.

Maðurinn kveikti í sjálfum sér fyrir framan veitingastað á háskólasvæði háskólans í Lyon en nokkrum klukkustundum áður hafði hann birt færslu á Facebook-síðu sinni þar sem hann tjáði sig um fjárhagsörðugleika sína.

Kenndi hann stjórnmálamönnum og Evrópusambandinu um bága stöðu námsmanna í landinu. Hann sagðist ekki sjá fram á að geta lifað lengur á 450 evrum á mánuði, sem samsvarar um það bil 62 þúsund krónum á mánuði, og kenndi Emmanuel Macron og forverum hans í embætti sem og Marine Le Pen og Evrópusambandinu um að hafa drepið sig. Hann sagði mikilvægt að fólk myndi berjast gegn fasisma og reyndi að færa samfélagið í átt að auknu frjálslyndi.

Ungt fólk hópaðist því saman víða um Frakkland og sýndu manninum samstöðu. Vilja þau meina að þetta sé skýrt dæmi um óöryggi ungs fólks í landinu og sendu samtök námsmanna frá sér yfirlýsingu þar sem þau sögðu ekki eiga að smætta sjálfsvígstilraunina niður í örvæntingu.

Kærasta mannsins hafði gert lögregluyfirvöldum viðvart eftir að hann hefði upplýst hana um fyrirætlanir sínar. Maðurinn er sagður í lífshættu og þekja brunasár 90% líkama hans.

Fólk með sjálfsvígshugsanir er minnt á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og netspjallið. Þjálfaðir og reynslumiklir sjálfboðaliðar á öllum aldri svara þeim símtölum og spjöllum sem berast. Fullum trúnaði er heitið. Nánari upplýsingar hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×