Skoðun

Sann­leikurinn

Katrín Oddsdóttir skrifar
Nú eru rúmlega sjö ár síðan þjóðaratkvæðagreiðsla um nýja stjórnarskrá fór fram á Íslandi. Þar sögðu kjósendur að leggja skyldi drög stjórnarlagaráðs til grundvallar sem stjórnarskrá fyrir Ísland. Auk þess sögðu 83% kjósenda að í nýrri stjórnarskrá skyldi lýsa náttúruauðlindir, sem ekki eru í einkaeigu, sem þjóðareign.

Á þeim 2.581 degi frá því þjóðaratkvæðagreiðslan fór fram hefur Alþingi hvorki sett Íslandi þá stjórnarskrá sem kjósendur sögðu að skyldi lögð til grundvallar né komið ákvæði um auðlindir landsins í gildandi stjórnarskrá. Ekkert hefur gerst. Ekki neitt.

Sú tillaga að auðlindaákvæði sem formannanefnd stjórnmálaflokka á Alþingis hefur lagt fram í samráðsgátt hefur að geyma lakari vernd almennings til eignarhalds á auðlindum en finna má í nýju stjórnarskránni sem kjósendur sögðu að skyldi lögð til grundvallar í þjóðaratkvæðagreiðslunni.

Gleymum því ekki í eina mínútu að samkvæmt íslenskum lögum eru nytjastofnar á Íslandsmiðum sameign íslensku þjóðarinnar.

Gleymum því ekki í eina mínútu að samkvæmt íslenskum veruleika rennur fjárhagslegi arðurinn af nytjastofnum á Íslandsmiðum í vasa örfárra útvaldra einstaklinga. Í krafti arðsins færa svo þessir einstaklingar út kvíar sínar til landa á borð við Namibíu. Gleymum því ekki að við látum þetta viðgangast með sinnuleysi okkar dag eftir dag. Ár eftir ár.

Misrétti elur af sér meira misrétti. Réttlæti skapar aukið réttlæti.

Nú er mál til komið að fólk á Íslandi standi saman og rísi upp gegn gegndarlausu arðráni og spillingu sem þrífst hér á landi, og stjórnvöld veita okkur enga vörn fyrir.

Getum við sætt okkur við hvernig farið er með fullveldi, auðlindir og æru okkar sem þjóð?

Allt opinbert vald sprettur frá þjóðinni. Einmitt þess vegna er það þjóðin, en ekki þingið, sem er stjórnarskrárgjafinn.

Við VERÐUM að vakna!

Höfundur er formaður Stjórnarskrárfélagsins.


Tengdar fréttir

Sagan

Stutta útgáfan er þessi: Við Íslendingar vorum á mikilli hraðferð þegar við fengum sjálfstæði frá Dönum árið 1944. Ástæðan var sú að nasistar höfðu hernumið Danmörku og við nýttum tækifærið og laumuðum okkur í burtu á meðan.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×