Erlent

Sagði símtalið umdeilda óviðeigandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Alexander Vindman, meðlimur þjóðaröryggisráðs Hvíta hússins og sérfræðingur í málefnum Úkraínu.
Alexander Vindman, meðlimur þjóðaröryggisráðs Hvíta hússins og sérfræðingur í málefnum Úkraínu. AP/Andrew Harnik
Alexander Vindman, meðlimur þjóðaröryggisráðs Hvíta hússins, segir umdeilt símtal Donald Trump og Volodymir Zelensky, forseta Bandaríkjanna og Úkraínu, hafa verið óviðeigandi. Það hefði ekki verið rétt af Trump að biðja erlendan þjóðarleiðtoga að rannsaka bandarískan borgara og pólitískan andstæðing hans.

Fulltrúadeild Bandaríkjaþings rannsakar nú hvort Trump hafi brotið af sér með því að beita yfirvöld Úkraínu þrýstingi til að fá Úkraínumenn til að hefja rannsókn sem kæmi niður á Joe Biden, pólitískum andstæðingi Trump, og rannsókn sem byggir á samsæriskenningu og er ætlað að grafa undan Rússarannsókninni svokölluðu.

Trump stöðvaði afhendingu um 400 milljóna dollara neyðarstoðar, sem þingið hafði samþykkt, til Úkraínu og meðal annars rannsakar þingið hvort það hafi verið gert til að auka þrýstinginn á Úkraínu.

Opnar vitnaleiðslur standa nú fyrir og þar sagði Vindman að hann hefði hlustað á áðurnefnt símtal, sem átti sér stað þann 25. júlí. Vegna þess að honum fannst ummæli Trump óviðeigandi fór hann til yfirmanns síns og lýsti yfir áhyggjum sínum.

Sama símtal leiddi til þess að uppljóstrari lagði fram opinbera kvörtun sem var metin „trúverðug“ og „áríðandi“. Tilvist þeirrar kvörtunar, sem Hvíta húsið kom í veg fyrir að þingmenn fengu í hendurnar, leiddi til rannsóknar fulltrúadeildarinnar.

Síðan þá hafa ýmis vitni stigið fram og varpað ljósi á málið. Hvíta húsið hefur þó komið í veg fyrir að fjöldi starfsmanna Hvíta hússins hafa borið vitni.

Meðal þess sem Vindman sagði í upphafi vitnaleiðslunnar í dag var að Gordon Sondland, sendiherra Bandaríkjanna gagnvart Evrópusambandinu, sem mun einnig bera vitni í vikunni, hafi seinna sagt að Úkraínumenn þyrftu að hefja áðurnefndar rannsóknir. Vindman sjálfur, sem er sérfræðingur í málefnum Úkraínu, sagði ráðamönnum þar að reyna að forðast afskipti af stjórnmálum Bandaríkjanna.

Sjá einnig: Sondland sagðist fara eftir skipunum Trump



Jennifer Williams, sem er í starfsteymi Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, sló á svipaða strengi. Hún hlustaði einnig á símtalið og sagði það „óvenjulegt“. Hún hefur starfað í þremur ríkisstjórnum og sagðist ekki hafa heyrt forseta ræða innlend málefni við aðra þjóðarleiðtoga áður.

Í aðdraganda símtalsins hafði Trump fengið minnispunkta um hvað hann ætti að tala um. Þar kom fram að Trump ætti að tala um baráttu Úkraínumanna gegn kerfisbundinni spillingu. Trump og bandamenn hans hafa meðal annars notað þá vörn að forsetanum sé mjög annt um spillingu í Úkraínu og rannsóknirnar tvær, sem Trump bað Zelensky um að hefja, kæmu þar að. Þeim væri ætlað að taka á spillingu.

Þrátt fyrir það, minntist Trump ekkert á spillingu í Úkraínu í símtalinu. Vindman sagði hann ekki heldur hafa minnst á spillingu þegar hann ræddi við Zelensky nokkrum vikum áður.

Þegar Zelensky ræddi möguleikann á því að kaupa vopn gegn skriðdrekum af Bandaríkjunum sagði Trump: „Þú þarft þó að gera okkur greiða“. Því næst ræddi hann rannsóknirnar tvær.

Fregnir hafa borist af því að Úkraínumenn ætluðu sér að verða við kröfum Trump. Það væri betra að verða við þeim en að missa hernaðaraðstoðina. Þeir sluppu þó fyrir horn vegna þrýstings þingmanna á Hvíta húsið sem vildu að aðstoðin yrði afhent.

Sjá einnig: Sluppu með naumindum við að verða við kröfum Trump

Rannsóknir sem byggja á samsæriskenningum

Forsetinn og bandamenn hans hafa sakað Joe Biden um spillingu vegna þess að hann þrýsti á úkraínsk stjórnvöld að reka saksóknara á sama tíma og Hunter, sonur hans, sat í stjórn olíufyrirtækisins. Það eigi Biden að hafa gert til að stöðva rannsókn sem beindist að Burisma, samkvæmt kenningu Trump-liða og vill forsetinn að Úkraínumenn rannsaki það.

Ekkert hefur þó komið fram sem bendir til þess að Biden-feðgarnir hafi gert nokkuð ólöglega eða að rannsókn hafi yfir höfuð staðið yfir á Burisma á þeim tíma sem þáverandi varaforsetinn reyndi að koma saksóknara frá. Sú viðleitni var hluti af alþjóðlegum þrýstingi þar sem vestræn ríki töldu saksóknarann ljón í vegi þess að uppræta langvarandi spillingu í Úkraínu.

Hin rannsóknin tengist samsæriskenningu um tölvupóstþjón landsnefndar Demókrataflokksins sem rússneskir hakkarar brutust inn í fyrir forsetakosningarnar 2016 og láku vandræðalegum póstum í gegnum Wikileaks. Trump hefur lengi verið gramur vegna niðurstöðu bandarísku leyniþjónustunnar að rússnesk stjórnvöld hafi háð upplýsingastríð og framið tölvuinnbrot til að hjálpa honum til sigurs.

Trump og bandamenn hans hafa því haldið þeirri hugmynd á lofti um að það hafi í reynd verið úkraínskir útsendarar sem frömdu innbrotið í tölvupóstþjón demókrata og að þeir hafi bókstaflega falið áþreifanlegan tölvupóstþjón í Úkraínu. Markmiðið hafi verið að koma sök á Rússa.

Hugmyndin grundvallast meðal annars á þeirri ranghugmynd að Crowdstrike, tölvuöryggisfyrirtæki frá Kaliforníu sem rannsakaði tölvuinnbrotið, hafi í raun verið í eigu úkraínsks auðkýfings. Crowdstrike, og alríkislögreglan FBI, komust að því að rússneskir hakkarar hefðu staðið að innbrotinu. Trump nefndi Crowdstrike sérstaklega á nafn í símtali sínu við Zelensky í júlí. Tölvupóstþjónn demókrata sem brotist var inn í var heldur ekki eitt áþreifanleg tæki eins og kenningin byggir á heldur skýþjónusta.


Tengdar fréttir

Bjóða Trump að svara spurningum þingmanna

Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, bauð í gær Donald Trump, forseta, að mæta á fund þingmanna og svara spurningum þeirra varðandi rannsókn fulltrúadeildarinnar á mögulegum embættisbrotum forsetans.

Sondland sagðist fara eftir skipunum Trump

Fyrrverandi meðlimur þjóðaröryggisráðs Hvíta hússins viðurkennir að hafa lagt til að hylja gögn um símtal á milli Trump og Zelensky. Þrátt fyrir það sagðist hann ekki hafa heyrt neitt óviðeigandi í símtalinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×