Erlent

O'Rourke dregur framboð sitt til baka

Kjartan Kjartansson skrifar
O'Rourke þótti upprennandi stjarna í flokknum eftir hlutfallslega vel heppnað framboð til öldungadeildarsætis í Texas í fyrra.
O'Rourke þótti upprennandi stjarna í flokknum eftir hlutfallslega vel heppnað framboð til öldungadeildarsætis í Texas í fyrra. AP/Marcio Jose Sanchez
Beto O‘Rourke, fyrrverandi fulltrúadeildarþingmaður Demókrataflokksins frá Texas, hefur dregið framboð sitt í forvali flokksins fyrir forsetakosningar næsta árs til baka. Honum varð aldrei sérstaklega ágengt í forvalinu og segist ekki ætla að bjóða sig fram til öldungadeildarsætis í Texas.

Mikil stemming skapaðist í kringum O‘Rourke eftir að hann veitti Ted Cruz, öldungadeildarþingmanni repúblikanaflokksins í Texas, harðari keppni um sætið í þingkosningunum í fyrra. Eftir töluverðar vangaveltur bauð hann sig svo fram í forvali Demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar á næsta ári.

New York Times segir að O‘Rourke hafi aldrei tekist að fanga sama kraft í forvalinu og hann gerði fyrir þingkosningarnar og framboð hans hafi verið komið í fjárhagskröggur. Hann hafi því tekið ákvörðun um að draga framboðið til baka fyrr í þessari viku.

„Þjónusta mín við landið verður ekki sem frambjóðandi eða sem sá sem er útvalinn,“ skrifar O‘Rourke í tölvupósti til stuðningsmanna sinna sem bandaríska blaðið hefur séð.

Enn eru sautján frambjóðendur eftir í forvali demókrata þrátt fyrir að O‘Rourke sé sá níundi sem helltist úr lestinni. Joe Biden, fyrrverandi varaforseti, Elizabeth Warren, öldungadeildarþingmaður frá Massachusetts, og Bernie Sanders, óháður öldungadeildarþingmaður frá Vermont, hafa mælst með mesta stuðning frambjóðendanna í skoðanakönnunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×