Sport

Ólympíumeistari í hnefaleikum hætt af því hún er hrædd við að missa sjónina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nicola Adams með annað Ólympíugullið sitt.
Nicola Adams með annað Ólympíugullið sitt. Getty/ Jan Kruger
Nicola Adams er tvöfaldur Ólympíumeistari í hnefaleikum en hún mun ekki reyna við þriðja Ólympíugullið sitt á ÓL í Tókýó næsta sumar.

Nicola Adams varð fyrsta konan til að vinna Ólympíugull í hnefaleikum á ÓL í London 2012 og varði síðan Ólympíugullið sitt á ÓL í Ríó fjórum árum síðar.





Hún gerðist atvinnumaður árið 2017 og er núverandi heimsmeistari WBO í fluguvigt. Nicola Adams er nú 37 ára gömul og varð að taka stóra ákvörðun á dögunum.

„Mér var ráðlagt það að hætta að boxa því fái ég annað högg á augað þá eru miklar líkur á varanlegum skaða og blindu,“ sagði Nicola Adams í viðtali í Yorkshire Evening Post.

„Það var mikill heiður fyrir mig að fá að keppa fyrir mína þjóð og það var algjör draumur að vinna tvö Ólympíugull og svo heimsmeistarabeltið hjá WBO. Það hefur kostað sínar fórnir og hefur tekið sinn toll af líkama mínum,“ sagði Adams.





Adams barðist síðast 28. september síðastliðinn þar sem hún varði heimsmeistaratitilinn sinn í fluguvigtinni. Hún barðist alls sex sinnum sem atvinnumaður, vann fimm bardaga og gerði eitt jafntefli.

Það leit allt út fyrir að Nicola Adams yrði meðal keppenda á ÓL í Tókýó á næsta ári enda eflaust mjög freistandi fyrir hana að fullkomna þrennuna. Hún ýtti undir þær sögusagnir þegar hún áframsendi myndband á Twitter síðu sinni þar sem var verið að kynna verðlaunapeningana á ÓL 2020.

Nicola Adams skrifaði undir: „Ég velti því fyrir mér hvernig þessi verðlaunapeningur myndi líta út á arinhillunni minni.“ Nú er aftur á móti ljóst að ekkert verður að því.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×