Viðskipti erlent

Enn mikil vinna óunnin hjá FAA vegna 737 MAX flugvélanna

Samúel Karl Ólason skrifar
Mynd sem tekin var við starfsstöð Boeing í Seattle.
Mynd sem tekin var við starfsstöð Boeing í Seattle. AP/Elaine Thompson
Starfsmenn Boeing hafa náð miklum árangri í að koma 737 MAX flugvélum fyrirtækisins aftur í loftið. Flugmálayfirvöld Bandaríkjanna, FAA, þurfa þó einhverjar vikur til að tryggja að úrræði Boeing dugi til. Þetta sagði Steve Dickson, forstjóri FAA, í dag. Galli í hugbúnaði flugvélanna er talinn hafa valdið tveimur flugslysum sem urðu 346 manns að bana.

Fyrra slysið varð í Indónesíu í október 2018 þegar Boeing Max 737 vél Lion Air hrapaði í sjóinn stuttu eftir flugtak frá Jakarta. Í því slysi létust 189.

Síðara slysið varð í Eþíópíu þegar vél Ethiopian Airlines hrapaði nokkrum mínútum eftir að vélin tók á loft og létust allir 157 um borð.

Síðan þá hafa flugvélarnar verið kyrrsettar víða um heim og pantanir flugfélaga frá Boeing sömuleiðis. Fyrirtækið vonast til þess að koma þeim aftur í loftið seinna á þessu ári.

Dickson sagði á ráðstefnu í dag, samkvæmt frétt Reuters, að FAA hefði fengið nýjar uppfærslur fyrir hugbúnaðinn og önnur gögn. Hann sagði þó mikla vinnu fyrir höndum og að 737 MAX-flugvélarnar færu ekki aftur í loftið fyrr en hann væri sannfærður um að þær væru fyllilega öruggar.

Um helgina bárust fregnir af því að starfsmenn Boeing hafi vitað af göllum flugvélanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×