Erlent

Unnu verkfræðiafrek og færðu 120 ára gamlan vita

Hrund Þórsdóttir skrifar
Það virkar frekar snúið að lyfta og færa hundrað og tuttugu ára gamla, þúsund tonna steinbyggingu, en verkfræðingar í Danmörku afrekuðu það í vikunni.

Rubjerg Knude vitinn á Norður-Jótlandi var byggður árið 1899 og þar hefur hann staðið síðan, í 60 metra hæð yfir sjávarmáli. Þótt hlutverki hans við að vísa sæförum leið sé lokið fyrir nokkru, þykir Dönum vænt um bygginguna og um tvö hundruð og fimmtíu þúsund gestir hafa skoðað hann á ári hverju. Þá hefur danski umhverfisráðherrann, Lea Wermelin, lýst hinum 23 metra háa vita sem þjóðargersemi.



Þegar vitinn var byggður stóð hann í um 200 metra fjarlægð frá sjó en landeyðing hefur verið hröð á hinu sönduga Jótlandi. Aðeins sex metrar voru eftir og vitinn í bráðri hættu á að falla í sjó.

Verkfræðisigur vannst því í vikunni þegar hinni sögufrægu byggingu var lyft upp á tvær brautir og færð eftir þeim um 70 metra leið. Hundruð heimamanna fylgdust með afrekinu, sem sýnt var frá í beinni útsendingu á helstu dönsku fréttaveitum, og náðist takmarkið á innan við tíu tímum sem áætlaðar höfðu verið í verkið.

Það kostaði Dani fimm milljónir danskra króna, eða um 93 íslenskar milljónir, að tryggja framtíð vitans sem nú mun gnæfa yfir Skagerrak um ókomna framtíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×