Viðskipti innlent

Hyggjast fljúga til Íslands í vor

Ari Brynjólfsson skrifar
Juneyao Air er með daglegt flug mili Shanghai og Helsinki.
Juneyao Air er með daglegt flug mili Shanghai og Helsinki. Fréttablaðið/EPA
 Kínverska flugfélagið Juneyao Air hyggst hefja flug til Íslands næsta vor. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er áætlað að félagið fljúgi frá borginni Shanghaí til Íslands með viðkomu í Helsinki, allt að þrisvar í viku.

Juneyao Air var stofnað árið 2006 og á 72 farþegaflugvélar sem samanstanda af Airbus A320 vélum og Boeing 787 Dreamliners vélum.

Í leiðakerfi flugfélagsins eru 160 flugleiðir sem tengja stærstu borgir Kína og nágrannaríkin. Farþegar á árinu 2018 voru yfir 18 milljónir. Félagið er þátttakandi í flugbandalaginu Star Alliance.

Félagið hóf í lok júní í ár beint daglegt flug til Helsinki frá Shanghai Pudong flugvellinum. Það er í samstarfi við finnska flugfélagið Finnair um leiðakerfi.

Ef af yrði myndi flug Juneyao Air teljast utan Schengen við komuna til Keflavíkur þrátt fyrir viðkomuna í Helsinki.

Sjá einnig: Kínverska sendiráðið beitir sér fyrir beinu flugi milli Íslands og Kína

Loftferðasamningar milli ríkja kveða á um að flugfélög njóti tilnefningar frá viðkomandi stjórnvaldi. Ekki er ljóst hvort Juneyao Air hefur slíkar tilnefningar frá kínverskum stjórnvöldum.

Fleiri kínversk flugfélög hafa áhuga á Íslandi.

Í sumar var greint frá því að Tinajin Airlines hefði sótt um þrjá afgreiðslutíma í hverri viku á Keflavíkurflugvelli fyrir komandi vetur. Þar var gert ráð fyrir flugi frá  Wuhan til Helsinki og þaðan til Íslands. Þeim áformum hefur nú verið seinkað fram á næsta ár. Félagið hefur einnig skoðað möguleika á flugi frá Wuhan til Íslands í gegnum Brussel í Belgíu.

Að auki hafa tvö önnur flugfélög verið að kanna flug til Íslands. Annars vegar ríkisflugfélagið Air China sem er langstærsta flugfélag Kína og eitt stærsta flugfélag heims. Það flutti yfir 100 milljónir farþega árið 2017. Það flýgur nú til 232 áfangastaða í heiminum. Hins vegar Beijing Capital Airlines sem er mun minna flugfélag en í eigu kínverska flugrisans Hainan Airlines.

Heimildarmenn Fréttablaðsins telja líklegra að áform Air China verði að veruleika en Beijing Capital Air­lines. Kannar Air China nú möguleika á flugi frá höfuðborginni Peking til Íslands með viðkomu í Kaupmannahöfn.




Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×