Körfubolti

Lárus telur að fyrirliði ÍR sé á leið í langt leikbann

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Lárus Jónsson, þjálfari Þórs.
Lárus Jónsson, þjálfari Þórs. ÞórTV/ thorsport.is
Lárus Jónsson, þjálfari Þórs, var hundfúll eftir að hafa séð sína menn tapa með tíu stiga mun fyrir ÍR í 4.umferð Dominos deildar karla í Íþróttahöllinni á Akureyri í kvöld.

Lárus telur að ljótt atvik sem gerðist seint í þriðja leikhluta hafi farið með leikinn fyrir Þórsara.

Við byrjuðum vel en svo skaut Evan (Singletary) þeim inn í leikinn í öðrum leikhluta. Hann skoraði 25 stig í fyrri hálfleik. Svo voru ÍR-ingar með fólskubragð sem fer með leikinn fyrir okkur. Það var greinilegt að Daði var ekki nálægt frákastinu,“ segir Lárus.

Þarna ræðir Lárus um Daða Berg Grétarsson, sem er fyrirliði ÍR, en honum var vikið úr húsi fyrir að ráðast á Mantas Virbalas, miðherja Þórs, eftir að sá síðarnefndi tók frákast. Hins vegar var Mantas sömuleiðis sendur úr húsi fyrir viðbrögð sín við árás Daða.

„Hann byrjar á að fella Mantas og svo sparkar Daði í Mantas þegar hann liggur. Auðvitað bregðast menn við. Við hefðum unnið þennan leik ef Mantas hefði klárað leikinn,“ segir Lárus.

Mantas Virbalas er lykilmaður í leik Þórs á meðan Daði er í aukahlutverki í liði ÍR og vill Lárus meina að þetta hafi verið þaulskipulögð áætlun hjá Daða. Lárus ræddi lengi við dómaratríóið eftir leik og segir þá hafa verið sammála því en þeir hafi engu að síður þurft að refsa Mantas fyrir að bregðast ókvæða við.

„Þetta var úthugsað hjá Daða og ég reikna með að hann fái langt bann. Dómararnir voru sammála því að þetta hafi líklega verið útreiknað hjá Daða en þeir þurftu að bregðast við útaf því að Mantas fór í Daða eftir atvikið. Mér finnst að dómararnir hefðu átt að vera fljótari að skerast í leikinn og stoppa þetta. Þeir áttu að bregðast við þegar þeir sjá Daða ráðast á Mantas en þetta gerist auðvitað á einni sekúndu,“ segir Lárus.

Lárus hafði ekki náð að ræða við Mantas þegar hann ræddi við blaðamann í leikslok. 

„Honum var náttúrulega vikið út úr húsi svo ég náði ekkert að tala við hann. Þegar einhver fellir þig, sparkar í þig liggjandi og hótar svo að kýla þig. Hvað gerir þú? Eðlilega reynir hann bara að verja sig. Þetta er fólskuleg áras,“ sagði Lárus.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×