Erlent

Telur að maður komi í manns stað hjá Ríki íslams

Kjartan Kjartansson og Stefán Ó. Jónsson skrifa
Ætlað fráfall Abu Bakr al-Bagdadi, leiðtoga hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams, er áfall fyrir fylgismenn hans en hefur líklega ekki teljandi áhrif á framgang samtakanna, að mati íslensks sérfræðings í málefnum þeirra. Maður komi að líkindum í manns stað.

Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti í dag að Bagdadi hefði sprengt sjálfan sig í loft upp þegar bandarískir sérsveitarmenn reyndu að taka hann höndum í aðgerð í norðvestanverðu Sýrlandi að næturþeli.

Bagdadi var ekki aðeins andlegur leiðtogi og andlit Ríkis íslams heldur var hann sagður stýra aðgerðum samtakanna með beinum hætti, að sögn Gunnars Hrafns Jónssonar, blaðamanns, sem hefur fjallað ítarlega um hryðjuverksamtökin.

Í tíð Bagdadi hefur Ríki íslams tekið við af al-Qaeda sem alþjóðlega hryðjuverkaógnin. Bagdadi hefur verið þekktur fyrir sérstaka grimmd, að sögn erlendra fjölmiðla.

Gunnar Hrafn telur að staðurinn þar sem Bagdadi fannst hafi líklega verið síðasti felustaðurinn sem hann átti eftir. Svæðið sé nærri landamærunum að Tyrklandi og þar hafi kúrdískar hersveitir sem hafa mestu til fórnað til að uppræta hryðjuverkasamtökin því veigrað sér við að gera árásir. Tyrknesk stjórnvöld líta á kúrdískar hersveitir sem hryðjuverksamtök og gerðu innrás í norðanvert Sýrland á dögunum til að þjarma að Kúrdum.

Þrátt fyrir þá athygli sem líklegt fall Bagdadi hefur vakið telur Gunnar Hrafn það ekki hafa teljandi áhrif á Ríki íslams.

„Það kemur auðvitað bara einhver annar í hans stað en þetta er áfall fyrir þetta net sem hann myndaði sjálfur þarna í Sýrlandi,“ segir Gunnar Hrafn.


Tengdar fréttir

Segir endalok al-Baghdadi ekki marka endalok ISIS

Varnarmálaráðherra Frakklands, Florence Parly, óskaði Bandarískum yfirvöldum til hamingju með að hafa ráðið niðurlögum hryðjuverkaleiðtogans Abu Bakr al-Baghdadi í nótt. Parly varaði Bandaríkjastjórn þó við því að þótt að lífi al-Baghdadi sé lokið þýði það ekki að svo sé komið fyrir samtökum hans ISIS.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×