Skoðun

Íslandsbanki setji sér gagnsæjar reglur um notkun auglýsingafjár

Hjálmar Jónsson skrifar
Það verður ekki undan því vikist að krefjast þess að Íslandsbanki gefi út afdráttarlausa yfirlýsingu um að hann muni ekki láta fjölmiðla með „afgerandi kynjahalla” gjalda þess að þeir eru skrifaðir fyrir tiltekna markhópa í okkar fjölbreytta kynjaða samfélagi, eins og til að mynda Gestgjafann, Vikuna, fotbolta.net, Smartlandið og Fiskifréttir, svo einhver dæmi séu tekin?  Hvernig öðru vísi má ávinna það traust sem glatast hefur með þessum ótrúlega vanhugsuðu fyrirætlunum þriðju stærstu fjármálastofnunar þjóðarinar, sem hafa ekkert með jafnrétti að gera.

Það hlýtur einnig að verða að spyrja þess hvort sú afdrifaríka stefna að gera tilraun til að hafa áhrif á umfjöllun fjölmiðla með hótunum um að auglýsa ekki í þeim, hvort sem það er vegna jafnréttismála, loftslagsvár, heimsfriðar eða annarra góðra mála, sem við öll viljum leggja lið, hafi verið borin undir stjórn bankans og samþykkt þar?  Í fljótu bragði er ekkert að finna um þessa jafnréttistefnu á heimasíðu bankans og ég sé ekki að hún hafi verið birt annars staðar.  Er það ekki lágmarkið að banki í almannaeigu birti stefnu sína í þessum málum, svo hægt sé að rýna hana og jafnvel gagnrýna?  Eða er það virkilega svo að þessu sé slegið fram í amstri dagana að óhugsuðu máli?

Stjórn bankans hlýtur að láta málið til sín taka og brýna fyrir starfsmönnum sínum að valdi fylgi ábyrgð.  Stjórn bankans hlýtur einnig að hlutast til um það að bankinn setji sér opnar og gagnsæjar reglur um notkun auglýsingafjár, þannig að það sé  hafið yfir allan vafa að þar ráði hlutlægni ferðinni.  Ég vil trúa því að þannig hafi það verið til þessa.

Höfundur er formaður BÍ.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×