Innlent

Vilja samráð um bankana

Sighvatur Arnmundsson skrifar
Fjármálaráðherra vonar að söluferli Íslandsbanka geti hafist fljótlega.
Fjármálaráðherra vonar að söluferli Íslandsbanka geti hafist fljótlega. Fréttablaðið/Ernir
Lýðræðisfélagið Alda skorar á stjórnvöld að hafa lýðræðislegt samráð um framtíðarskipan bankakerfisins. Í ályktun sem var samþykkt á aðalfundi félagsins um helgina eru stjórnvöld hvött til að hefja ekki sölu á hlut sínum í Landsbankanum og Íslandsbanka fyrr en að loknu ferli þar sem almenningi verði gefinn kostur á að koma að málum.

Félagið mælir með því að stjórnvöld efni til borgaraþings, láti gera skoðanakannanir og haldi þjóðaratkvæðagreiðslu til að sem ríkust sátt náist um bankakerfið. Íslenska ríkið fer nú með alla eignarhluti í Íslandsbanka og 98,2 prósenta hlut í Landsbankanum. Stefna stjórnvalda er að selja allan hlutinn í Íslandsbanka en halda eftir 34-40 prósenta hlut í Landsbankanum.

Í skoðanakönnun sem Zenter rannsóknir gerðu fyrir Fréttablaðið í lok júlí sögðust rúm 60 prósent vilja að ríkið héldi óbreyttum eignarhlut í bönkunum eða yki hlut sinn. Tæp 40 prósent sögðust vilja að ríkið myndi draga úr eignarhlut sínum í bönkunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×