Erlent

Afturkalla lög eftir óeirðir síðustu daga

Atli Ísleifsson skrifar
Mótmælendur fögnuðu í Quito í gærkvöldi eftir að frétir bárust að lög um að niðurgreiðslu á eldsneyti skuli hætt hafi verið afturkölluð.
Mótmælendur fögnuðu í Quito í gærkvöldi eftir að frétir bárust að lög um að niðurgreiðslu á eldsneyti skuli hætt hafi verið afturkölluð. Getty
Ríkisstjórn Ekvadors hefur afturkallað umdeild lög sem kveða á um að niðurgreiðsla ríkisins á eldsneyti skuli hætt. Lagasetningin leiddi til mikilla mótmæla í höfuðborginni Quito sem varð til þess að forseti landsins og ríkisstjórn flúðu borgina. Ófremdarástand hefur ríkt í Quito síðustu daga.

Tilkynningin um að afturkalla lögin kom eftir að sáttaviðleitanir milli stjórnvalda og leiðtoga frumbyggja sem hafa verið áberandi í mótmælunum báru ávöxt í gærkvöldi. Sameinuðu þjóðirnar og kaþólska kirkjan höfðu milligöngu um viðræðurnar.

Mótmælin stóðu í nærri tvær vikur og kom forseti landsins, Lenín Moreno, á útgöngubanni í landinu sem herinn sá um að framfylgja.

Samkvæmt samkomulaginu skal mótmælum hætt og skulu teknar upp viðræður um nýja löggjöf sem ætlað er að tryggja að niðurgreiðslur vegna eldsneytis séu ekki misnotaðar af aðilum sem smygla eldsneytisbirgðum til landsins frá nágrannaríkjum.

Lagasetningin um að niðurgreiðslu á eldsneyti skuli hætt var unnin í samráði við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn með það að markmiði að draga úr fjárlagahalla og skuldum ríkissjóðs. Var hún til þess að verð á dísilolíu hækkaði um 120 prósent í landinu og bensíni um 30 prósent.

Alls hafa sjö manns látið lífið og nærri 2.100 særst frá því að mótmælin hófust fyrir um tveimur vikum. Talið er að um fjórðungur íbúa Ekvador séu af frumbyggjaættum og búa í Andesfjöllum og Amasón. Sóttu þúsundir þeirra til höfuðborgarinnar í síðustu viku til að taka þátt í mótmælaaðgerðunum.


Tengdar fréttir

Ekvadorski herinn vaktar götur höfuðborgarinnar

Mikil og hörð mótmæli hafa geisað í Suður-Ameríkuríkinu Ekvador undanfarna viku vegna hækkandi eldsneytisverðs. Ósáttir Ekvadorar hafa fyllt götur og stræti Quito og hafa ráðist að skrifstofum fjölmiðla og kveiktu í skrifstofu ríkisendurskoðanda Ekvador.

Rýma for­seta­höllina vegna elds­neytis­mót­mæla

Búið er að rýma forsetahöllina í Ekvador og hafa ráðherrar flúið höfuðborgina Quito. Búist er við að þúsundir muni halda til höfuðborgarinnar á morgun til að mótmæla ríkisstjórn landsins og hækkun eldsneytisverðs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×