Erlent

Trump sagður fordæma „óhugnanlegt“ myndband sem sýnt var í golfklúbbi hans

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Donald Trump.
Donald Trump. AP/Pablo Martinez Monsivais
Talsmaður Hvíta hússins segir að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, fordæmi sterklega óhugnanlegt tilbúið myndband þar sem meðal annars sjá má persónu sem líkist forsetanum skjóta, stinga og ráðast á fjölmiðla og pólítiska andstæðinga hans.

New York Times greindi frá því í dag að myndbandið hafi verið sýnt á ráðstefnu fyrir stuðningsmenn Trump sem haldin var á Doral-golfklúbbi hans í Flórída í síðustu viku.

Ráðstefnan var haldin á vegum American Priority en forsvarsmenn samtakanna segjast hvorki hafa séð, samþykkt né heimilað birtingu myndbandsins á ráðstefnunni. Meðal þeirra sem héldu erindi á ráðstefnunni voru Donald Trump Jr., sonur Trump og Sarah Huckabee Sanders, fyrrverandi talsmaður forsetans. Þau segjast hvorugt hafa séð myndbandið sem um ræðir.

New York Times greinir frá því að á myndbandinu megi meðal annars sjá atriði þar sem búið er að klippa andlit Trump inn á atriði í myndinni Kingsman: The Secret Service. Þar slátrar Trump kirkjugestum í „Kirkju falsfrétta“en á andlit þeirra var búið að klippa myndir af pólitískum andstæðingum hans eða merkjum fjölmiðla.

Talsmaður Trump segir að forsetinn hafi ekki séð myndbandið en ætli sér að sjá það „innan tíðar.“

„Miðað við það sem hann hefur heyrt þá fordæmir hann myndbandið sterklega,“ segir Stephani Grisham, talsmaður Hvíta hússins á Twitter.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×