Skoðun

Uppsagnir í bönkum og sérstök skattlagning

Sigurgeir Jónasson skrifar
Mikla athygli vakti þegar forsvarsmenn Arion banka gripu til þungrar hagræðingaraðgerðar í lok september þar sem um 100 manns var sagt upp. Á ársgrunni er hagræðingin talin lækka rekstrarkostnað bankans um 1,3 milljarða króna. Ein af ástæðunum sem Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, nefndi í fjölmiðlum fyrir uppsögnunum var að bankinn greiðir um 5 milljarða króna á ári í sértæka skatta og íþyngi þeir bankanum mjög í rekstrinum.

Yfirlýst stefna Arion banka er að ná arðsemi eigin fjár upp í 10% en árið 2018 var hún einungis 3,8%. Það er lakari ávöxtun en hefur fengist í hefðbundnum lausafjársjóðum síðustu ár en lausafjársjóðir hafa verið með ávöxtun á milli 4-5% og teljast með áhættuminnstu fjárfestingakostunum sem eru í boði. Hefðu þessar sparnaðaraðgerðir, sem kynntar voru nú fyrir skemmstu, tekið gildi í byrjun ársins 2018 hefðu þær aukið arðsemi bankans um 70 punkta og hún þá farið upp í 4,5% að öllu öðru óbreyttu.

Skattpíndir bankar

Árið 2018 greiddi Arion banki tæpa 3,4 milljarða króna í bankaskatt (0,376% af heildarskuldum) og á þá eftir að taka tillit til sérstöku fjársýsluskattanna sem reiknast á hagnað umfram einn milljarð (6%) og laun starfsmanna fjármálafyrirtækja (5,5%) sem bætast við önnur launatengd gjöld. Þetta eru allt sérstakir skattar á fjármálafyrirtæki sem draga úr arðseminni. Bankaskatturinn er ekki innheimtur í Noregi eða Danmörku en í Svíþjóð er hann 0,036%, eða um einn tíundi af skattinum hér á landi.

Ef við skoðum arðsemi Arion árið 2018 aftur og tökum nú tillit til þess hver hún hefði verið ef ekki væri fyrir bankaskattinn þá sjáum við að arðsemin hefði verið 5,5%, eða um 1,7 prósentustigum hærri en raunin varð. Ef við tökum arðsemina og skoðum hver hún væri ef kæmi til afnáms allra þessara sérstöku skatta þá næmi arðsemin 6,3%, eða væri 2,5 prósentustigum hærri. Sömu sögu má segja um Íslandsbanka og Landsbanka sem greiddu um 3,3 og 3,9 milljarða í bankaskatt árið 2018.

Af þessu er nokkuð augljóst að séríslenskar kvaðir og álögur sem einungis fjármálafyrirtæki greiða hafa margfalt meiri neikvæð áhrif á arðsemi banka en um 100 starfsmenn eins banka. Augljóst er hvað þarf að gera. Hið opinbera þarf að létta á álögum og kvöðum íslenskra fjármálafyrirtækja sem allra fyrst, öllum til heilla. Að lokum má því spyrja sig þessarar einföldu spurningar: Hversu margir hefðu getað haldið starfi sínu í Arion ef hið opinbera væri búið að afnema bankaskattinn og hina sérstöku fjársýsluskatta?




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×