Fótbolti

Gnabry aðeins sá ellefti sem fær tíu í einkunn hjá L'Equipe

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gnabry var óstöðvandi gegn Tottenham.
Gnabry var óstöðvandi gegn Tottenham. vísir/getty
Serge Gnabry var maður gærdagsins í Meistaradeild Evrópu en hann skoraði fjögur mörk þegar Bayern München rúllaði yfir Tottenham, 2-7.

Fyrir frammistöðu sína fékk Gnabry tíu í einkunn af tíu mögulegum hjá franska dagblaðinu L'Equipe.

Gnabry er aðeins sá ellefti sem fær fullkomna einkunn hjá L'Equipe. Blaðamenn þar á bæ eru þekktir fyrir að vera sparir á tíurnar.

Gnabry er sá þriðji sem fær tíu í einkunn hjá L'Equipe á þessu ári. Dusan Tadic fékk tíu fyrir frammistöðu sína í 1-4 sigri Ajax á Real Madrid í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Lucas Moura fékk sömuleiðis tíu fyrir frammistöðu sína í 2-3 sigri Tottenham á Ajax í undanúrslitum Meistaradeildarinnar. Hann skoraði þá öll mörk Spurs sem tryggði sæti í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í fyrsta sinn í sögu félagsins.

Lionel Messi er sá eini sem hefur fengið fleiri en eina tíu hjá L'Equipe. Börsungurinn fékk fullkomna einkunn fyrir frammistöðu sína gegn Arsenal 2010 og Bayer Leverkusen 2012.

Franck Sauzée (1988), Bruno Martini (1988), Oleg Salenko (1994), Lars Windfeld (1997), Robert Lewandowski (2013), Carlos Eduardo (2014) og Neymar (2018) hafa einnig fengið tíu í einkunn hjá L'Equipe.

Leiðin hefur heldur betur legið upp á við hjá Gnabry eftir að Tony Pulis taldi sig ekki hafa not fyrir hann hjá West Brom.

Hann var valinn leikmaður ársins hjá Bayern á síðasta tímabili og hefur skorað níu mörk í tíu leikjum fyrir þýska landsliðið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×