Innlent

Ósáttur við að vera settur á mótmælalista að sér forspurðum

Jakob Bjarnar skrifar
Jón Bjarni Steinsson á Dillon segist aldrei hafa skrifað undir mótmæli við lokun fyrir bílaumferð á Laugavegi og er afar ósáttur við að vera settur á lista að sér forspurðum.
Jón Bjarni Steinsson á Dillon segist aldrei hafa skrifað undir mótmæli við lokun fyrir bílaumferð á Laugavegi og er afar ósáttur við að vera settur á lista að sér forspurðum. Fréttablaðið/Anton Brink
Jón Bjarni Steinsson eigandi og framkvæmdastjóri veitingastaðarins Dillon við Laugaveg er afar ósáttur við að nafn staðarins sé sett á lista yfir þá kaupmenn og rekstraraðila sem eru á móti því að Laugavegi verði lokað fyrir bílaumferð.

„Ég er mjög ósáttur. Ég samþykkti þetta aldrei,“ segir Jón Bjarni í samtali við Vísi. Heilsíðuauglýsing birtist í Morgunblaðinu í dag þar sem fyrirhuguðum breytingum er mótmælt.

Jón Bjarni segist ekki vita hvernig hann eigi að bregðast við því að vera settur á einhvern lista að sér forspurðum.

Jón Bjarni segir þennan lista ekki trúverðugan. Hans fyrirtæki er þar þó Jón Bjarni hafi neitað að skrifa undir. Og svo mun vera um fleiri.
„Verð ég ekki bara að fara fram á innköllun á Mogganum í dag? Það getur ekki verið mikið vesen. Þetta eru ekki nema örfáar hræður sem lesa þetta,“ segir Jón Bjarni háðslega. Hann hefur það til marks um óvönduð vinnubrögð að ekki hafi einu sinni tekist að stafsetja nafn götunnar rétt í auglýsingunni, hvað þá meira: „Laugaveigi afhenntur“.

Jón Bjarni segist „að sjálfsögðu vera fylgjandi því að Laugavegur verði göngugata. Og vil gjarnan vita hvernig ég endaði á þessum lista. Ég var búinn að neita að skrifa undir,“ segir Jón Bjarni og lætur það fylgja sögunni að það hafi verið erfitt að bíta þann af sér sem vildi fá nafn hans á listann.

„Ég hef heyrt að þeir séu fleiri á þessum lista sem koma af fjöllum.“

Þá má nefna að kaupmaðurinn Hörður Ágústsson kenndur við Macland, sem hefur verið ákafur talsmaður þess að Laugavegur verði gerður að göngugötu, telur um að ræða afar vafasama auglýsingu, svo ekki sé meira sagt. Þá skoðun sína tjáir hann umbúðalaust á Twitter-reikningi sínum.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×