Erlent

Ný ríkis­stjórn tekur við í Perú eftir storma­sama viku

Atli Ísleifsson skrifar
Martín Vizcarra tók við embætti forseta Perú í mars á síðasta ári.
Martín Vizcarra tók við embætti forseta Perú í mars á síðasta ári. Getty
Ný ríkisstjórn tók við völdum í Perú í gær eftir stormasama viku í stjórnmálalífi landsins. Athöfnin átti sér stað í forsetahöllinni í Líma, höfuðborg landsins.

Martín Vizcarra, forseti Perú, leysti upp þing landsins á mánudag en pólitískir andstæðingar forsetans höfðu þar meirihluta. Forsetinn hefur lengi sakað þingið um að standa í vegi fyrir að tekið verði almennilega á spillingu í landinu og leggja stein í götu spillingarrannsókna yfirvalda.

Á sama tíma og ný ríkisstjórn tók við var tilkynnt að boðað hafi verið til þingkosninga í landinu þann 26. janúar næstkomandi.

Þrír af fyrrverandi forsetum landsins eru nú til rannsóknar vegna ásakana um spillingu. Sá fjórði, Alan Garcia, fyrirfór sér í apríl síðastliðinn þegar til stóð að handtaka hann vegna gruns um að hann hafði gerst sekur um spillingu.

Vicente Zeballos er nýr forsætisráðherra landsins. Hann hefur áður gegnt embætti dómsmálaráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×