Skoðun

Fjár­hags­á­ætlunar­gerðin og lýð­ræði sjálf­stæðis­manna í Garða­bæ

Sara Dögg Svanhildardóttir skrifar
Gerð fjárhagsáætlunar fyrir sveitarfélagið er eitt af stærstu verkefnum bæjarstjórnar Garðabæjar. Í fjárhagsáætlun felast ákvarðanir sem hafa áhrif á alla bæjarbúa með mismunandi hætti. Við í Garðabæjarlistanum hófumst handa í fyrra haust full eftirvæntingar og bjartsýni um að það þætti ekki annað en sjálfsagt að leggja af stað í slíka vinnu með samvinnu allra kjörinna fulltrúa. Þeirra fulltrúa sem bæjarbúar kusu til að fara með hagsmuni sína.

Fulltrúar minnihlutans fengu einn fund með fjármálastjóra og bæjarstjóra um fyrirhugaða áætlun. Áætlun sem meirihlutinn var búinn að stilla upp eftir sínu höfði. Því fór sem fór. Við fulltrúar Garðabæjarlistans samþykktum ekki fjárhagsáætlun enda birti hún ekkert af okkar sýn til verkefnanna eða forgangsröðunar fjármuna í þágu íbúa.

Nú hefst önnur umferð og við mætum bjartsýn til leiks. Fylgjumst með vinnulagi annarra sveitarfélaga þar sem lögð er sérstök áhersla á samráð og samtal um þá áætlun sem lögð verður fram. Jú, við sjáum glitta í lýðræðið handan við hornið í Garðabænum. Rétt svo. Pínulítið framfara skref frá fyrra fari. Nú verður samráðið með þeim hætti að fundurinn sem náðist í gegn í fyrra verður haldinn fyrr, sem vekur von um að núna verði ekki búið að niðurnjörva alla hluti áður en við fáum að kynna okkur þá. Hitt sem við fögnum hins vegar mjög er að í fyrsta skipti er í ferli þessarar mikilvægu vinnu er staður og stund fyrir pólitíska umræðu inn í nefndum sviðanna um forgangsröðun verkefna. Þótt umræðan komi inn á lokametrum vinnunnar þá fögnum við nýju stefi í vinnulagið. Það er nýtt og fagnaðarefni.

Þannig virkar lýðræðið og þannig eflum við ekki síður meðvitund okkar allra á rekstri sveitarfélagsins. Umfangi verkefnanna og þeirrar sýnar sem ákvarðanirnar lýsa.

Við höldum af stað borubrött með okkar tillögur í farteskinu, komum þeim inn í umræðuna í bæjarráði og bæjarstjórn næstu vikurnar og virkjum þannig lýðræðið á meðan valið stendur ekki um annað.

Höfundur er oddviti og bæjarfulltrúi Garðabæjarlistans í Garðabæ.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×