Innlent

Farsíma, debetkorti og ökuskírteini stolið af Gunnari

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Gunnar Þorsteinsson, kenndur við Krossinn.
Gunnar Þorsteinsson, kenndur við Krossinn. Vísir/Vlhelm
Gunnar Þorsteinsson, sem lengi vel var kenndur við trúarsöfnuðinn Krossinn, greinir frá því að óprúttnir aðilar hafi stolið af honum skilríkum og snjallsíma. Hann var með systur sinni á veitingastað í miðbæ Torrevieja á Spáni í gærkvöldi þegar óprúttna aðila bar að garði.

Gunnar og Ásdís voru að rekja ættir sínar saman og skoðuðu Íslendingabók á síma Gunnars. 



„Blómasölumaður vindur sér að okkur og vildi selja varning sinn, en eins og menn vita er ég ekki hrifinn af jurtaleifum. Annar kemur og vildi koma inn á okkur sólgleraugum án árangurs. Þetta er hvimleitt en hluti af menningunni hér.“ 

Svo hafi borið að annan mann með fullt af miðum, líklega happdrættismiðum.

„Hann breiðir úr miðunum yfir símann sem lá á borðinu, en ég vísa honum frá. Þagar hann tekur miðana tekur hann símann í sömu hreifingu. Ég var fljótur að átta mig hvað hafði gerst, en þjófurinn var þá horfinn á braut.“ 

Gunnar segist hafa beðið þjóninn um að hringja á lögregluna. Þeir hafi hins vegar viljað bíða til mánudags með að skoða málið.

„Debetkortið var í símahulstrinu sem og ökuskírteinið. Ég hafði samband við kortafyrirtækið og símafyrirtækið, en lítið annað var hægt að gera. Þetta er hundsbit. Ég verð að finna lausn eftir helgi í samvinnu við lögreglu, tryggingafyrirtækið mitt og sem og símafyrirtækið.“ 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×