Skoðun

Siðaskiptin 2.0

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar
Af hverju eru allir að gera eitthvað meðan það er svo dæmalaust huggulegt að sitja og sötra sérrí eða bara gera ekki neitt? Þessu velti gríska skáldið Konstantinos Kavafís fyrir sér meðan hann gekk um ímyndað þorp þar sem allir unnu hörðum höndum. Ástæðan fyrir vinnuseminni var sú að von var á barbörunum og þá var víst betra að vera við öllu búinn. Barbararnir halda okkur jú við efnið. Þeir eru jafn nauðsynlegir fyrir samfélagið og ellin fyrir lífeyrissjóðina.

Værukærðin kom mér því mjög á óvart þegar ljóst var að dagur barbaranna var að renna upp þegar litið er til loftslagsmála. Af hverju er enginn að gera neitt nema Greta? Ég kveikti ekki á perunni fyrr en Juncker sagði eitthvað á þá leið að stjórnmálamenn vissu uppá hár hvað þyrfti að gera en hitt vissu þeir ekki hvernig ætti að gera það og verða svo kosnir á ný. Eitthvað svipað hlýtur að ganga á í viðskiptaheiminum. Þar vita menn sínu viti en það vit er kannski hluthöfum lítt að skapi.

Dæmið lítur því svona út: Hvernig getum við komið heilsufari fyllibyttunnar í lag án þess að það bitni á Bakkusi? Þeir sem þekkja gríska goðafræði vita vel að það reynist jafnan örlagaríkt að styggja guði sína.

Er ekki eins farið fyrir okkur og byttunni atarna? Það er ekki nóg að láta hana rýna í útreikninga og beita vísindalegum rökum heldur þarf hún nýjan andlegan styrk og jafnvel trú. Einsog við. Því ef við ætlum að standast þessa áskorun, þá er eflaust kominn tími til að tilbiðja nýja guði.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×