Erlent

Danir flykktust ofan í nýjar neðan­jarðar­lestir í gær

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Margrét Þórhildur Danadrottning opnaði nýja lestakerfið.
Margrét Þórhildur Danadrottning opnaði nýja lestakerfið. Nordicphotos/Getty
Nýtt neðanjarðarlestakerfi var opnað í Kaupmannahöfn í gær og fjölmenntu Danir sem og ferðamenn í borginni í lestirnar enda ókeypis þennan fyrsta dag. Samkvæmt frétt Danmarks Radio stóðu börn og fullorðnir í löngum biðröðum við margar af hinum sautján nýju lestarstöðvum.

Það var Margrét Þórhildur Danadrottning sem setti nýja lestakerfið formlega í gang. Samkvæmt frétt DR vekur nýja kerfið mikla lukku meðal almennings. Hver lestarstöð er skreytt á sinn hátt og er það ekki síst þess vegna sem fólk er hrifið.

Rætt var við verkfræðinginn Ole Quistgaard sem kvað lestakerfið góða fjárfestingu fyrir Kaupmannahöfn, íbúa höfuðborgarinnar og alla sem þangað koma. „Neðanjarðarlest heyrir til í stórborg,“ sagði Quistgaard.

Lestarævintýrinu fylgir þó að fargjöld í allt lestakerfið hækka að meðaltali um eina danska krónu – jafnvirði 18 íslenskra króna. „Mér finnst það svínarí að það komi aukagjöld á öllum leiðum,“ hafði DR eftir Charlotte Axelsen sem býr í Fred­eriksberg.

Nýju stöðvarnar munu tengja Vesterbro, Frederiksberg, Nørrebro, Østerbro og miðbæinn og sagt er að lengsta ferðin taki að hámarki tólf mínútur. Engir lestarstjórar eru um borð og aka lestirnar á þriggja mínútna fresti á háannatímum. Með framkvæmdinni er áætlað að ferðir í neðanjarðarlestunum verði orðnar tvöfalt fleiri á næsta ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×