Erlent

Losun frá flugi vex hraðar en spár gerðu ráð fyrir

Kjartan Kjartansson skrifar
Þrátt fyrir að sparneytni nýrra flugvéla hafi batnað hefur vaxandi eftirspurn og fjölgun flugferða meira en vegið upp á móti því.
Þrátt fyrir að sparneytni nýrra flugvéla hafi batnað hefur vaxandi eftirspurn og fjölgun flugferða meira en vegið upp á móti því. Vísir/EPA
Vísbendingar eru um að losun gróðurhúsalofttegunda frá flugsamgöngum aukist nú helmingi hraðar en Alþjóðaflugmálastofnunin gerði ráð fyrir. Spár Sameinuðu þjóðanna gerðu þegar ráð fyrir að losun frá flugi þrefaldaðist fyrir miðja öldina.

Flugsamgöngur valda um 2,5% af heildarlosun mannkynsins á gróðurhúsalofttegundum sem valda loftslagsbreytingum á jörðinni. Alþjóðaflugmálastofnunin spáði því að losun frá flugvélum næði um 900 milljónum tonna í fyrra og hún þrefaldaðist fyrir árið 2050.

Aukningin er drifin áfram af miklum vexti í flugsamgöngum á heimsvísu, mikilli fjölgun lágfargjaldaflugfélaga og ferðaþjónustu fyrir vaxandi miðstétt.

Ný rannsókn Alþjóðaráðsins um hreinar samgöngur þar sem hátt í fjörutíu milljónir flugferða um allan heim í fyrra voru greindar bendir til þess að losun frá flugi aukist ennþá hraðar en þessar spár gerðu ráð fyrir.

Brandon Graver, aðalhöfundur rannsóknar, segir New York Times að aukin eftirspurn eftir flugferðum eyði út ávinningi af því að flugfélög hafi náð vaxandi eldsneytnissparneytni.

„Loftslagsáskorunin fyrir fluggeirann er verri en nokkurn grunaði,“ segir hann.

Niðurstöður hans benda til þess að flugferðir frá bandarískum flugvöllum losi nærri því fjórðung alls koltvísýrings sem losaður er í farþegaflugi í heiminum. Þar á eftir kemur Kína, Bretland, Japan og Þýskaland. Þróunarríki þar sem helmingur mannkyns býr stóðu fyrir um tíu prósentum af losun á heimsvísu.

Losun frá flugi hefur verið utan við Parísarsamkomulagið. Samkvæmt samkomulagi Alþjóðaflugmálastofnunarinnar ætla flugfélög að byrja að kolefnisjafna losun sína sjálfviljug frá og með næsta ári. Búist er við mótmæltum í Montreal í næstu viku þegar eftirlitsstofnanir með flugmálum funda þar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×