Skoðun

Fiskeldið er orðin kærkomin búbót

Einar K. Guðfinnsson skrifar
Fiskeldi er kærkomin búbót hér á landi. Á fyrstu sjö mánuðum þessa árs nemur útflutningsverðmætið um 13,7 milljörðum króna. Það er 75 prósent aukning frá fyrra ári. Ætla má að útflutningsverðmæti fiskeldis á þessu ári verði yfir 20 milljarðar króna. Það svipar til árlegs útflutningsverðmætis loðnunnar að jafnaði, sé litið yfir tíu ára tímabil.

Þetta skiptir máli, ekki síst núna þegar slegið hefur í bakseglin í gjaldeyrissköpun þjóðarbúsins. Það minnir okkur á mikilvægi fjölbreytninnar í atvinnulífinu. Flestum er ljóst að fiskeldið er orðið burðarás í heilum landshlutum. En áhrifanna gætir um allt land.

Fiskeldið þarfnast margs konar þjónustu og fyrirtæki á því sviði hafa eflst og ný sprottið upp víðs vegar um landið. Auk fiskeldis á Austfjörðum og Vestfjörðum má nefna seiðaeldi og fiskeldi á Norðausturlandi, stórtækt seiðaeldi í sveitarfélaginu Ölfusi, hrognaframleiðslu og fjölbreytt fiskeldi á Suðurnesjum, fjölþætt skóla- og vísindastarf og áfram má telja.

Laxeldi vex ekki einasta hér á landi. Sömu sögu er að segja frá öðrum löndum. Laxeldi í heiminum jókst um 500 þúsund tonn frá árinu 2012. Áætlað er að fram til ársins 2022 vaxi það um önnur 500 þúsund tonn. Heimsframleiðslan á laxi mun því aukast um eina milljón tonna á 10 árum; einum áratug. Nær öll þessi framleiðsla á sér stað í sjókvíum. Vísustu menn telja að framboð og spurn eftir laxaafurðum muni á næstu árum aukast árlega um 5 til 6 prósent á heimsvísu. Og það þarf að framleiða gott prótín með litlu kolefnisspori, fyrir heim þar sem mannfjöldi eykst um 220 þúsund á degi hverjum!

Fiskeldi – ekki síst laxeldið – er þegar orðin atvinnugrein sem um munar hér á landi. Framundan eru enn frekari tækifæri sem styrkjastoðir efnahagslífsins, auka við flóruna í atvinnulífinu, treysta byggðir og skapa ný og fjölbreyttari störf.

Höfundur starfar að fiskeldismálum hjá SFS




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×