Skoðun

Hverjum má treysta?

Bolli Héðinsson skrifar
Sú dapurlega orðræða sem þjóðin varð vitni að um orkupakkann dró fram hvaða stjórnmálaflokkum má treysta í Evrópumálum. Þannig þarf ekki mikið innsæi eða þekkingu á íslenskum stjórnmálum til að átta sig á að Vinstri græn hefðu farið fram gegn orkupakkanum, með sömu heilögu vandlætingunni og sömu röksemdafærslu og Miðflokksmenn, ef ekki hefði svo viljað til að þau væru einmitt í ríkisstjórn núna. Vinstri græn er einfaldlega þannig flokkur sem segir eitt í stjórnarandstöðu og annað í ríkisstjórn. Um það ber myndun núverandi ríkisstjórnarinnar órækt vitni, þegar Vinstri græn tóku meðvitaða ákvörðun um að fara í stjórn með flokkum sem tryggðu að þau þyrftu ekki að standa við kosningaloforð sín. T.d. loforð um hærra auðlindagjald í sjávarútvegi, sem þau höfðu síðan sérstaka forgöngu um að lækka, þvert á það sem þau höfðu boðað fyrir kosningar.

Formaður Sjálfstæðisflokksins lét hafa eftir sér í upphafi umræðunnar um orkupakkann:

„Hvað í ósköpunum liggur mönnum á að komast undir sameiginlega raforkustofnun Evrópu á okkar einangraða landi með okkar eigið raforkukerfi? Hvers vegna í ósköpunum hafa menn áhuga á því að komast undir boðvald þessara stofnana? (...) Raforkumál Íslands eru ekki innri-markaðsmál. (…) Eru það rök að þar sem Evrópusambandinu hefur þegar tekist að koma Íslandi undir einhverja samevrópska stofnun sé ástæða til að ganga lengra?“

Með svona orðræðu er Sjálfstæðisflokkurinn kominn í sömu stöðu og Íhaldsflokkurinn breski sem alla tíð hefur slegið úr og í um Evrópusamvinnuna til að freista þess að halda öllum flokksmönnum góðum. Þessi afstaða leiddi Breta á endanum í þær ógöngur sem þeir glíma við nú.

Sama gildir á Íslandi, í Evrópumálum er ekki hægt að bera kápuna á báðum öxlum. Annaðhvort viðurkenna menn þann ávinning sem þjóðin hefur af þátttöku sinni í EES, og eru óhræddir við að halda honum á lofti, eða menn eru einfaldlega á móti Evrópusamvinnunni og reiðubúnir að færa þær fórnir sem það útheimtir. Hvorum megin liggur Sjálfstæðisflokkurinn?

Höfundur er hagfræðingur






Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×