Erlent

Háttsettir Repúblikanar styðja rannsókn á Trump

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Ýmsir kjörnir fulltrúar Repúblikana í Bandaríkjunum krefja Donald Trump forseta nú svara um samskipti hans við Volodímír Selenskíj, forseta Úkraínu. Trump fór fram á að Úkraínumenn myndu rannsaka Joe Biden, fyrrverandi varaforseta og pólitískan andstæðing sinn.

Skylda þingsins að rannsaka

James Comer, þingmaður Repúblikana, sagði í morgun að Trump þyrfti að svara sérstaklega fyrir það hvers vegna forsetaembættið hafi reynt að fela eftirrit af símtali forsetans við Selenskíj. Í kvörtun uppljóstrara um samskiptin, sem birt var í gær, sagði að skjalið hafi verið fært á tölvukerfi ætlað upplýsingum sem þarf að leyna vegna þjóðaröryggis.

Og Comer stendur ekki einn í gagnrýni sinni. Phil Scott, Repúblikani og ríkisstjóri Vermont, sagðist styðja rannsókn á því hvort Trump hafi gerst sekur um embættisbrot. Charlie Baker, ríkisstjóri Massachusetts, hafði þetta að segja: „Þetta er afar truflandi mál og ég tel það skyldu og ábyrgð þingsins á þessari stundu að rannsaka málið.“

 

Kveðst alsaklaus

Trump er sjálfur ósammála því að nokkuð sé athugavert við samskiptin. Hann harðneitar því að hafa lofað Selenskíj áframhaldandi hernaðaraðstoð gegn því að rannsókn yrði hafin og vitnar til þeirra orða Selenskíjs að hann hafi ekki sætt þrýstingi. Auk þess hefur Trump gagnrýnt kvörtunina í ljósi þess að uppljóstrarinn var ekki sjálfur vitni að samskiptunum og líkt heimildarmönnum hans við njósnara.

Fulltrúadeild þingsins rannsakar nú hvort Trump hafi framið embættisbrot. Meirihluti deildarinnar styður rannsóknina en í framhaldinu gæti Trump verið ákærður til embættismissis. Ef ákæra er gefin út fer málið fyrir öldungadeildina, sem þykir ólíkleg til þess að sakfella forsetann.


Tengdar fréttir

Trump rifjar upp Mueller-æfingarnar

Orð og setningar eins og nornaveiðar, hneyksli, forsetaáreiti, "það hefur aldrei verið komið jafn illa fram við forseta“ og "þetta má ekki gerast aftur“, eru farin að birtast í miklu magni á Twitter-síðu Trump og í yfirlýsingum hans til fjölmiðla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×