Innlent

Vilja umbuna fyrir samflot í umferðinni

Andri Eysteinsson og Stefán Ó. Jónsson skrifa
Eyþór Arnalds var á meðal gesta Þóris Guðmundssonar í Víglínunni í dag.
Eyþór Arnalds var á meðal gesta Þóris Guðmundssonar í Víglínunni í dag. Vísir
Sjálfstæðismenn í Reykjavík vilja umbuna þeim sem sameinast í bíla í borginni. Þeir hyggjast leggja fram tillögu í borgarstjórn á morgun sem miðar að því að ívilna þeim sem eru þrjú eða fleiri í bíl, með það fyrir augum að draga úr umferð.

Þetta kom fram í máli Eyþórs í Víglínunni nú síðdegis en samflokksmaður hans, Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar, hefur viðrað sambærilega hugmynd og sagt það koma til greina að bæta við forgangsakrein fyrir almenningssamgöngur og þá sem sameinast í bíla. Eyþór segir það gefa auga leið að það myndi létta á umferð á höfuðborgarsvæðinu.

„Við erum með tillögu í borgarstjórn á morgun um að borgin setji sér þau markmið að þeir sem eru þrír saman í bíl í samfloti fái einhverjar ívilnanir. Í dag eru engar ívilnanir fyrir þá sem eru þrír í bíl. Það sjá það allir að ef það er einn í bíl tekur það þrisvar sinnum meira pláss en ef væru þrír í bílnum,“ sagði Eyþór í Víglínunni í dag.

„Ég vona að þessi tillaga verði samþykkt, hún er liður í því að liðka fyrir umferðinni án þess að það kosti mikla peninga.“

Hér má nálgasti nánari útfærslu tillögunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×