Erlent

Fundar með foreldrum mannsins sem lést eftir fangavist í Norður-Kóreu

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Fred og Cindy Warmier, foreldrar Otto.
Fred og Cindy Warmier, foreldrar Otto. EPA/SALVATORE DI NOLFI
Donald Trump Bandaríkjaforseti mun í kvöld setjast að kvöldmatarborðinu með Fred og Cindy Warmbier. Þau eru foreldrar Ottos Warmbier sem lést í júní 2017, skömmu eftir komu til Bandaríkjanna, eftir að hafa verið í haldi í Norður Kóreu frá ársbyrjun 2016.

Warmbier var gefið að sök að hafa stolið áróðursspjaldi og var dæmdur til 15 ára fangelsisvistar af norðurkóreskum yfirvöldum.

Foreldrar mannsins hafa haldið því fram að Warmbier hafi verið beittur pyntingum í fangelsinu og reiddust þau mjög þegar Trump tísti á þá leið að hann trúði Kim Jong Un, leiðtoga Norður-Kóreu, þegar hann segðist ekki hafa vitneskju um illa meðferð af nokkrum toga.

Guardian hefur eftir talsmanni ríkisstjórnar Bandaríkjanna að Trump muni setjast til borðs með Warmbier-hjónunum í kvöld. Gert er ráð fyrir að Richard Grenell, sendiherra Bandaríkjanna í Þýskalandi, verði einnig viðstaddur kvöldverðinn. Hann er einn þeirra 15 sem Trump íhugar nú að skipa í embætti þjóðaröryggisráðgjafa eftir að John Bolton hvarf frá því embætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×