Erlent

Mengunaragnir geta borist frá móður til fósturs

Tvöfalt fleiri mengunaragnir fundust í fylgju kvenna sem bjuggu nærri umferðaræðum en þeirra sem bjuggu fjær þeim.
Tvöfalt fleiri mengunaragnir fundust í fylgju kvenna sem bjuggu nærri umferðaræðum en þeirra sem bjuggu fjær þeim. Vísir/EPA
Rannsakendur hafa fundið vísbendingar um að loftmengunaragnir sem losna frá bifreiðum og bruna á eldsneyti sem mæður anda að sér berist til fósturs. Niðurstöður þeirra benda til þess að mengunaragnirnar sjálfar geti tengst aukinni hættu fyrir fóstur.

Agnir svonefnds kinroks, fíngers kolefnis sem myndast við ófullkominn bruna á olíu, fundist innan í fylgjum sem voru rannsakaðar. The Guardian segir þetta í fyrsta skipti sem rannsókn sýni að agnir sem móðir andar að sér geti komist í gegnum fylgjuna. Þúsundir mengunaragna fundust á hverjum rúmmillímetra fylgjanna sem voru rannsakaðar.

Fram að þessu hafa vísindamenn rakið tengsl loftmengunar við aukna hættu á fósturmissi, fyrirburafæðingu og að börn komi í undirþyngd í heiminn til bólguviðbragða í móður vegna mengunaragna sem hún andar að sér. Niðurstöður rannsóknarinnar nú benda til þess að agnirnar sjálfar gætu valdið aukinni áhættu fyrir fóstur.

Rannsóknin birtist í vísindaritinu Nature Communications í gær. Alls voru 25 fylgjur úr konum frá bænum Hasselt í Belgíu sem reykja ekki rannsakaðar. Loftmengun í bænum er sögð vel undir heilbrigðisviðmiðum Evrópusambandsins en yfir viðmiðum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar.

Svifryksagnir fundust innan í öllum fylgjunum og var fjöldinn í samræmi við hversu mikilli loftmengun konurnar höfðu orðið fyrir. Að meðaltali fundust 20.000 öragnir á rúmmíllímetra í fylgju í kvenna sem bjuggu nærri umferðaræðum en helmingi færri í þeim sem bjuggu fjær fjölförnum vegum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×