Viðskipti innlent

Jói Fel lokar á landsbyggðinni og fjölgar útibúum í Reykjavík

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Jói Fel tók við rekstri á bakaríum á Selfossi og á Hellu fyrir 18 mánuðum síðan.
Jói Fel tók við rekstri á bakaríum á Selfossi og á Hellu fyrir 18 mánuðum síðan. Samsett mynd
„Lokað vegna óviðráðanlegra aðstæðna,“ er skrifað á miða í glugganum á Guðni Bakari á Selfossi. Tvö af bakaríum í eigu Jóhannesar Felixsonar bakarameistara eru lokuð í augnablikinu, Guðni Bakari á Selfossi og Kökuval á Hellu. Starfsmaður á skrifstofu Jóa Fel í Holtagörðum staðfestir þetta í samtali við Vísi.

Ekki er vitað hvort um tímabundna lokun er að ræða en í samtali við DV í gær sagði Jói Fel að það sé verið að vinna í þessu máli og að „þetta skýrist síðar.“ DV heldur því fram að gjaldþrot vofi yfir bakaríunum tveimur.  

Samkvæmt Lögbirtingablaðinu var Guðni bakari ehf. úrskurðað gjaldþrota þann 26. ágúst síðastliðinn. Skiptafundur verður fimmtudaginn 28. nóvember næstkomandi. 

Skjáskot/Lögbirtingablaðið
Þann 26. ágúst tilkynnti Jói Fel um opnun á nýju kaffihúsi og bakaríi í Borgartúni í Reykjavík. Í mars á þessu ári opnaði hann einnig útibú í Spönginni í Reykjavík. Guðnabakarí opnaði árið 1972 en Kökuval var stofnað árið 1992. Jói Fel tók við rekstri bakaríanna í desember árið 2017 og breytti nafninu úr Guðnabakarí í Guðni bakari, en hélt rekstrinum aðskildum frá rekstrinum á útibúum Jóa Fel á Höfuðborgarsvæðinu.

„Já, það er rétt,  ég er búin að kaupa Guðnabakarí á Selfossi og Kökuval á Hellu og tek við rekstri þeirra um áramótin. Bæði eru þessi bakarí flott og verða í svipuðum rekstri áfram en það verður þó smátt og smátt Jóa Fel stíll á þeim“, sagði Jói Fel um kaupin í samtali við Vísi árið 2017. 

Þá kom fram að engar uppsagnir myndu verða samhliða kaupunum og starfsmenn á báðum stöðum myndu halda vinnu sinni. Eftir kaupin á Bakaríunum tveimur varð Jói Fel eigandi sjö bakaría með samtals meira en hundrað starfsmenn.

Íbúar á Selfossi hafa síðustu daga komið að læstum dyrum í bakaríinu Guðni Bakari. Fyrirtækið hefur verið í rekstri frá árinu 1972.Vísir/Magnús Hlynur
Bakaríið Hjá Jóa Fel var stofnað þann 5. nóvember árið 1997. Bakaríið er í dag með sex útibú á höfuðborgarsvæðinu. Þau eru í Holtagörðum, Spönginni, Smáralind, Litlatúni í Garðabæ,  JL húsinu við Hringbraut og á nýjum stað í Borgartúni.

Öll framleiðsla fram í Holtagörðunum.

Ekki náðist í Jóa Fel við vinnslu fréttar.



Fréttin var uppfærð kl. 12:24 með upplýsingum úr Lögbirtingarblaðinu


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×