Innlent

Hefur endurgreitt björgunarfélaginu stærstan hluta fjárins

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Björgunarfélag Árborgar er staðsett á Selfossi.
Björgunarfélag Árborgar er staðsett á Selfossi. Vísir/Vilhelm
Fyrrverandi gjaldkeri Björgunarfélagsins Árborgar hefur greitt til baka stóran hluta þeirrar upphæðar sem honum er gefið að sök að hafa dregið sér á átta ára tímabili. Þetta staðfestir Kristín Edwald hæstaréttarlögmaður í samtali við Vísi en hún hefur gætt hagsmuna björgunarfélagsins í málinu.

Gjaldkerinn fyrrverandi sætir ákæru fyrir fjárdrátt, umboðssvik og peningaþvætti í sjálfboðastarfi sínu. Heildarupphæðin nemur 17,7 milljónum króna. Tók hann, samkvæmt því sem segir í ákæru, útaf reikningum félagsins, millifærði inn á eigin reikning og konu sinnar auk þess að nota reikninga félagsins hjá byggingavöruverslunum og bensínkort.

Samkvæmt heimildum Vísis hafði hann einn prófkúru hjá félaginu um árabil en hann gegndi stöðu gjaldkera í vel á annan áratug. Millifærslurnar og úttektirnar skipta hundruðum.

Kristín segir í samtali við Vísi að sátt hafi náðst á milli stjórnar félagsins og gjaldkerans fyrrverandi fyrr á árinu. Sé málinu því lokið af hálfu björgunarfélagsins. Því er ekki að finna neina bótakröfu í málinu í ákæru héraðssaksóknara.

Gjaldkerinn vildi ekki tjá sig um málið í samtali við Vísi. Málið færi sína leið fyrir dómstólum en það verður þingfest í Héraðsdómi Suðurlands þann 5. september.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×