Erlent

Dorian nálgast: „Hæg­fara felli­bylur er ekki vinur okkar“

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Gangi spár eftir verður Dorian fyrsti fjórða stigs fellibylur sem skellur á austurströnd Flórída síðan árið 1992 þegar fellibylurinn Andrew, sem var fimmta stigs fellibylur, rústaði öllu sem á vegi hans varð á Miami og varð 65 manns að bana.
Gangi spár eftir verður Dorian fyrsti fjórða stigs fellibylur sem skellur á austurströnd Flórída síðan árið 1992 þegar fellibylurinn Andrew, sem var fimmta stigs fellibylur, rústaði öllu sem á vegi hans varð á Miami og varð 65 manns að bana. Vísir/epa
Veðurfræðingar í Bandaríkjunum gera nú ráð fyrir að fellibylurinn Dorian muni ganga á land einhvers staðar á austurströnd Flórída um hádegisbilið á þriðjudag þótt erfitt sé að segja til um hvar nákvæmlega óveðrið skellur á.

Sumir veðurfræðingar telja afar líklegt að Dorian gangi á land fyrir miðju ríkisins á meðan aðrir gera fremur ráð fyrir því að hann lendi ýmist norðan við miðju eða sunnan.

„Það veltur allt á þessum dansi háþrýsti- og lágþrýstisvæða,“ segir Hugh Willoughby, veðurfræðingur við háskólann í Flórída á Miami í samtali við New York Times.

Íbúar í Flórída eru í óða önn að undirbúa sig fyrir komu Dorians.Vísir/epa
Gangi spár eftir verður Dorian fyrsti fjórða stigs fellibylur sem skellur á austurströnd Flórída síðan árið 1992 þegar fellibylurinn Andrew, sem var fimmta stigs fellibylur, rústaði öllu sem á vegi hans varð á Miami og varð 65 manns að bana.

Í kvöld efldist Dorian að styrk. Hann flokkast sem þriðja stigs fellibylur en meðalvindhraði í bylnum er 51 metri á sekúndu

„Hægfara fellibylur er ekki vinur okkar,“ segir Dennis Feltgen, sérfræðingur hjá fellibyljamiðstöð Bandaríkjanna.

Því hægfara sem Dorian verður eftir helgi þeim mun verri verða afleiðingarnar fyrir íbúa Flórída segir Feltgen sem varar við tilheyrandi aftakaroki og flóðahættu.

Ron DeSantis lýsti á dögunum yfir neyðarástandi í Flórída en íbúar ríkisins hafa undanfarna tvo daga verið að birgja sig upp af matvælum, vatni og lyfjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×