Viðskipti innlent

Aton og Jónsson & Le'macks í eina sæng

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Eigendur Aton.JL, frá vinstri: Agnar Tr. Lemacks, Ingvar Sverrisson, Viggó Örn Jónsson og Huginn Freyr Þorsteinsson.
Eigendur Aton.JL, frá vinstri: Agnar Tr. Lemacks, Ingvar Sverrisson, Viggó Örn Jónsson og Huginn Freyr Þorsteinsson.
Almannatengslafyrirtækið Aton og auglýsingastofan Jónsson & Le‘macks hafa nú sameinast undir nafninu Aton.JL. Starfsmenn Aton.JL verða með sameiningunni 42 talsins, 30 í Reykjavík og 12 í Belgrad í Serbíu.

Fram kemur í tilkynningu frá hinu sameinaða félagi að framkvæmdastjóri Atons.JL verði Ingvar Sverrisson sem er jafnframt eigandi ásamt þeim Agnari Tr. Lemacks, stjórnarformanni, Dr. Hugin Frey Þorsteinssyni, ráðgjafa og Viggó Erni Jónssyni, ráðgjafa. Fyrirtækið er til húsa að Laugavegi 26.

Haft er eftir Agnari í tilkynningunni að aðstandendur nýja fyrirtækisins telji sameininguna hafa verið rökrétt skref. „Jónsson & Le‘macks hefur á síðustu misserum verið að þróast úr því að vera hefðbundin auglýsingastofa í að sinna ráðgjöf og skipulagðri upplýsingagjöf. Með því að sameinast Aton verður til mjög öflugt samskiptafélag sem opnar viðskiptavinum ný tækifæri,” segir Agnar.

Ingvar tekur í sama streng. Nýja félagið muni gera þeim kleift að þjónusta viðskiptavini betur auk þess sem það svarar kalli markaðarins. „Almenningur og fyrirtæki gera kröfu um að upplýsingaflæði sé stöðugt. Því mun sameining þessara sterku félaga gera það að verkum að fyrirtæki, félög og stofnanir geti leitað til eins samskiptafélags til að ná sínum markmiðum.”






Fleiri fréttir

Sjá meira


×