Salah með tvö þegar Liverpool vann Arsenal

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Salah fagnar. Hann er kominn með þrjú mörk í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu.
Salah fagnar. Hann er kominn með þrjú mörk í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu. vísir/getty
Mohamed Salah skoraði tvö mörk þegar Liverpool vann Arsenal, 3-1, í stórleik helgarinnar í ensku úrvalsdeildarinnar. Liverpool er eina liðið sem er með fullt hús stiga í ensku úrvalsdeildinni.

Liverpool hefur unnið tólf deildarleiki í röð. Með sigrinum í dag jafnaði Liverpool félagsmet frá 1990.



Liverpool náði forystunni á 41. mínútu þegar Joël Matip skoraði með skalla eftir hornspyrnu Trents Alexander-Arnold. Hann hefur lagt upp níu mörk í síðustu tíu leikjum sínum á Anfield.



Á 49. mínútu skoraði Salah úr vítaspyrnu sem hann fiskaði sjálfur. Egyptinn skoraði annað mark sitt og þriðja mark Liverpool með góðu skoti í fjærhornið á 58. mínútu.

Salah hefur skorað sex mörk í sex leikjum gegn Arsenal í ensku úrvalsdeildinni, fimm fyrir Liverpool og eitt fyrir Chelsea.



Varamaðurinn Lucas Torreira minnkaði muninn í 3-1 fimm mínútum fyrir leikslok en nær komst Arsenal ekki. Skytturnar eru í 2. sæti deildarinnar með sex stig.

Liverpool hefur ekki tapað fyrir Arsenal í níu leikjum í röð í öllum keppnum. Í síðustu sjö leikjum sínum á Anfield hefur Arsenal fengið á sig 25 mörk.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira