Erlent

Verk­fall British Airwa­ys setur ferða­plön hundraða þúsunda í upp­nám

Sylvía Hall skrifar
Flugvél frá félaginu er sögð taka á loft á 90 sekúndna fresti einhvers staðar í heiminum.
Flugvél frá félaginu er sögð taka á loft á 90 sekúndna fresti einhvers staðar í heiminum. Vísir/Getty
Flugmenn British Airways hafa boðað þrjá verkfallsdaga í næsta mánuði vegna kjaradeilna. Verkföllin verða í gildi þann 9., 10. og 27. september.

Þrátt fyrir að aðeins sé um þrjá daga að ræða hafa verkföllin áhrif á þá ferðalanga sem hyggjast ferðast aðra daga um svipað leyti. Í frétt BBC kemur fram að dæmi séu um að farþegar hafi fengið tölvupóst þar sem þeim er tilkynnt að ferðir þeirra falli niður þann 8. og 12. september og einn kveðst hafa fengið samsvarandi tölvupóst um flug sitt þann 25. september.

Farþegum hefur verið bent á að breyta bókun sinni eða krefjast endurgreiðslu en þrátt fyrir það hefur gengið erfiðlega fyrir marga að ná sambandi við þjónustuver flugfélagsins og fá ferðinni breytt. Þá hefur skilaboðum ekki verið svarað og kvarta margir undan takmörkuðu upplýsingaflæði.





Samkvæmt upplýsingum frá British Airways flýgur flugfélagið með um 145 þúsund farþega á hverjum degi. Flugvél frá flugfélaginu er sögð taka á loft á 90 sekúndna fresti einhvers staðar í heiminum en floti félagsins telur yfir 280 vélar.

Í yfirlýsingu frá flugfélaginu segir að verið sé að reyna að gera allt sem í valdi þeirra stendur til þess að leysa deiluna svo þessar „ósanngjörnu aðgerðir“ verði ekki að veruleika og eyðileggi ekki ferðaplön viðskiptavina.

„Starfsemi flugfélaga er mjög flókin og þegar víðfeðm truflun á sér stað geta komið upp ruðningsáhrif sem hafa áhrif á flug dagana á eftir,“ segir í yfirlýsingu frá flugfélaginu.


Tengdar fréttir

Allt stefnir í verkfall hjá flugmönnum British Airways

Útlit er fyrir að flugmenn í Flugmannafélagi British Airways (BALPA) muni fara í verkfall síðar í sumar eftir að áfrýjunardómstóll hafnaði í dag beiðni flugfélagsins um að setja lögbann til að koma í veg fyrir verkfallið.

Verkfallsaðgerðum á Heathrow frestað

Verkfalli starfsmanna Heathrow flugvallar í Lundúnum sem átti að hefjast á morgun hefur verið frestað. Um 2500 starfsmenn vallarins höfðu samþykkt að leggja niður störf á morgun og þriðjudag til að knýja fram launahækkun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×