Erlent

Einn handtekinn vegna morðsins í Malmö

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá vettvangi í Malmö í dag.
Frá vettvangi í Malmö í dag. vísir/epa
Einn maður var handtekinn í Malmö síðdegis í dag grunaður um aðild að morði á konu um þrítugt í sænsku borginni í morgun.

Mattias Sigfridsson, aðstoðarlögreglustjóri í Malmö, segir að verið sé að ræða það ásamt saksóknara hvort að maðurinn verði áfram í haldi í kvöld en hann hefur verið í yfirheyrslu.

„Ég get ekki svarað því hvort hann er grunaður um morðið eða annars konar aðild að því. Við ræðum það nú við saksóknarann hvort við höfum manninn áfram í haldi nú í kvöld,“ segir Sigfridsson.

Hann segir lögregluna vinna hörðum höndum að því að fá mynd af atburðarásinni í morgun þegar konan var skotin til bana. Hún var á gangi með barni sínu og barnsföður þegar dökklæddur maður birtist óvænt og skaut hana í höfuðið. Sjónarvottur lýsti morðinu sem aftöku.

Sigfridsson getur ekki svarað því að svo stöddu hvort að maðurinn sem var handtekinn í dag hafi haft einhver tengsl við konuna. Hann segir að lögreglan geti ekki séð að konunni hafi staðið ógn af einhverju eða einhverjum en útiloka þó ekki neitt við rannsókn málsins.

Greint var frá því fyrr í dag að verið að kanna hvort að morðið tengdist vitnisburði konunnar í morðmáli eða afbrotasögu barnsföður hennar.

„Við vitum að konan kom til skýrslutöku hjá lögreglu vegna máls en höfum ekki upplýsingar um að hún hafi borið vitni í réttarsal. En þetta er eitt af því sem við erum að sjálfsögðu að kanna,“ segir Sigfridsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×