Viðskipti innlent

Lífeyrissjóðir bættu við sig í Högum fyrir um 1,8 milljarð

Hörður Ægisson skrifar
Hagar reka meðal annars verslanir Bónuss.
Hagar reka meðal annars verslanir Bónuss. vísir/vilhelm
Íslenskir lífeyrissjóðir keyptu að langstærstum hluta bréf FISK-Seafood, dótturfélags Kaupfélags Skagfirðinga, í Högum þegar útgerðarfélagið seldi allan 4,6 prósenta hlut sinn í smásölurisanum í síðustu viku fyrir samtals 2,3 milljarða króna. Sé litið yfir nýjan lista yfir 20 stærstu hluthafa Haga eiga lífeyrissjóðir orðið samanlagt um 63 prósenta hlut í félaginu.

Samhliða sölu sinni í Högum, á samtals 55,5 milljónum hluta á genginu 41,5 krónur á hlut, keypti FISK-Seafood nær allan eignarhlut Gildis lífeyrissjóðs í Brimi, áður HB Granda, eða 8,3 prósenta hlut, fyrir um fimm milljarða króna. Fyrir hlut sinn í Brimi fékk Gildi meðal annars afhentar 25 milljónir hluta í Högum og nemur eignarhlutur lífeyrissjóðsins núna 14,56 prósentum.

Aðrir lífeyrissjóðir sem bættu við sig í Högum í liðinni viku, eins og lesa má úr nýjum lista yfir stærstu hluthafa, voru Festa en sjóðurinn keypti 9,5 milljónir hluta og fer núna fyrir rúmlega 3,8 prósenta hlut í félaginu. Þá bætti Birta lífeyrissjóður, sem er fimmti stærsti hluthafi Haga, við sig 5,3 milljónum hluta auk þess sem lífeyrissjóðirnir Stapi og Lífsverk juku einnig lítillega við hlut sinn. Samtals bættu þessir lífeyrissjóðir við sig rúmlega 43 milljónum hluta í smásölurisanum. Það jafngildir um 1.800 milljónum króna sé miðað við gengið 41,5 í viðskiptunum við FISK-Seafood á mánudag í síðustu viku.

Frá því að viðskiptin gengu í gegn hefur hlutabréfaverð Haga lækkað um tæplega fimm prósent og stóð í 39,5 krónum á hlut við lokun markaða í gær. Frá áramótum hefur gengi bréfa Haga lækkað um fjórtán prósent.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×