Körfubolti

DeMarcus Cousins hótaði að skjóta barnsmóður sína í höfuðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
DeMarcus Cousins lék með Golden State Warriors á síðustu leiktíð.
DeMarcus Cousins lék með Golden State Warriors á síðustu leiktíð. Getty/Gregory Shamus
Körfuboltamaðurinn DeMarcus Cousins er bæði í miklum vandræðum innan og utan vallar. Hann missir af komandi tímabili með Los Angeles Lakers eftir að hafa slitið krossband í sumar og nú hefur fyrrum kærasta hans sótt um nálgunarbann.

TMZ sagði frá því í gær að DeMarcus Cousins hafi hótað umræddri Christy West, tekið hans hálstaki og hótað því að setja byssukúlu í „helvítis hausinn“ á henni í rifrildi þeirra.





Rifrildið snerist um að það hvort sjö ára sonur þeirra mætti koma í brúðkaup DeMarcus Cousins og annarrar konu.

NBA-deildin veit af þessu máli og segjast menn þar á bæ ætla að kanna málið betur. Sömu sögu er að segja af Lakers.

DeMarcus Cousins gifti sig í Atlanta á laugardaginn var en sonur hans var ekki í brúðkaupinu.

TMZ birti rifildi þeirra DeMarcus Cousins og Christy West og þar má heyra hótanir Cousins og þegar West neitar beiðni hans.





DeMarcus Cousins er 29 ára gamall og hefur verið mjög óheppinn með meiðsli síðustu ár. Hann lék lítinn hluta af síðasta tímabili eftir að hafa slitið hásin í leik með New Oerleans Pelicans tímabilið á undan.

Cousins samdi síðan við Lakers fyrir lítinn pening í sumar en sleit krossband áður en hann náði að mæta á fyrstu æfingu með liðinu.

Áður en DeMarcus Cousins sleit hásin var hann talinn einn allra besti miðherji NBA-deildarinnar enda með 25,2 stig, 12,9 fráköst, 5,4 stoðsendingar og 1,6 varið skot að meðaltali á síðasta tímabili sínu með New Orleans Pelicans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×