Sport

Fjölskylda Jessi Combs: Yfirgaf jörðina akandi á meiri hraða en nokkur önnur kona í sögunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jessi Combs
Jessi Combs Getty/Frederick M. Brown
Fjölskylda Jessi Combs vissi að það fólst í því mikil áhætta fyrir kappaksturshetjuna Jessi Combs að elta drauminn sinn.

Jessi Combs átti þann draum að komast hraðar en nokkur önnur kona í sögunni og það tókst hjá henni í gær en með skelfilegum afleiðingum.

Hin 39 ára gamla Jessi Combs lést í gær eftir að hafa klesst kappakstursbíl sinn sem var á yfir 824 kílómetra hraða.





Hún var að reyna að setja nýtt heimsmet yfir að koma ökutæki á sem mestum hraða á landi og notaði til þess sérstakan þotuhreyfil. Það var öllu til tjaldað til að ná heimsmetinu og um leið tók Jessi gríðarlega mikla áhættu.

Jessi hafði komist á 641 kílómetra hraða árið 2013 og var eftir það kölluð fljótasta konan á fjórum hjólum. Hún vildi hins vegar meira og þá sérstaklega met Kitty O'Neil frá árinu 1976. Kitty O'Neil hafði þá komið bíl sínum á 824 kílómetra hraða.

Heimsmetstilraunin og slysið átti sér stað í suðaustur Oregon fylkis en ekki er vitað nákvæmlega hvað gerðist og orsakaði það að hún klessti bílinn á svo miklum hraða.

Fjölskylda Jessi Combs gaf frá sér yfirlýsingu þar hún minnist Jessi sem brosandi og orkumikilli konu.

„Stærsti draumur Jessi var að verða hraðasta kona á jörðinni og það var draumur sem hún hefur verið að elta frá árinu 2012 .... og hún yfirgaf jörðina akandi á meiri hraða en nokkur önnur kona í sögunni,“ segir í yfirlýsingu frá fjölskyldu hennar sem má sjá alla hér fyrir neðan.

Jessi vann meðal annars fyrir bílamiðilinn Autoblog þar sem hún stýrði sjónvarpsþáttum. Þar á bæ minnast samstarfsmenn og kollegar Jessi einnig með miklum trega og settu saman meðfylgjandi myndband.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×