Erlent

Sprenging við lögreglustöð í Kaupmannahöfn

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Frá vettvangi.
Frá vettvangi. Vísir/AP
Sprenging varð fyrir utan lögreglustöð í Kaupmannahöfn í nótt, aðeins nokkrum dögum eftir að sambærileg sprenging varð fyrir utan Skattstofu Danmerkur á þriðjudagskvöld. Engin slys urðu á fólki.

Sprengingin varð laust fyrir klukkan hálf fjögur að staðartíma við Norðurbrú, örfáum kílómetrum frá Austurbrú, þar sem Skattstofan er staðsett.

Lögregla segir of snemmt að segja til um hvort sprengingin tengist þeirri sem varð fyrr í vikunni, en vinnur nú að rannsókn málsins.

Lýst hefur verið eftir manni sem sást flýja vettvanginn eftir að sprengingin varð. Sá var klæddur í svört föt og hvíta skó. Hefur lögregla beðið öll möguleg vitni að málinu að stíga fram.

Lögreglan hefur þegar gefið út að grunur leiki á að sprengingin sem varð á þriðjudag hafi verið viljaverk, en hefur þó ekki enn fært fram nein sönnunargögn þeim grun til stuðnings.

Í kjölfar árásanna birti Morten Østergaard, þingmaður félagshyggjuflokksins Radikale Venstre, færslu á Twitter þar sem hann sagði að árás á lögregluna væri árás á alla Dani og að í Danmörku ættu engin að óttast að vera sprengd í loft upp, hvort sem það er við lögreglustöð, Skattstofuna eða nokkurs staðar annars staðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×