Innlent

Félag atvinnurekenda gagnrýnir tollkvótafrumvarp ráðherra

Birna Dröfn Jónasdóttir skrifar
Úthluta á innflutningsheimildum á kjöti án endurgjalds að mati FA
Úthluta á innflutningsheimildum á kjöti án endurgjalds að mati FA Nordicphotos/Getty
Félag atvinnurekenda (FA) gagnrýnir drög landbúnaðarráðherra að nýju frumvarpi um breytingu á úthlutun tollkvóta. FA segir að með frumvarpinu sé þrengt að innflutningi á kjöti og sé það þvert á yfirlýst markmið frumvarpsins.

Ekki verði lengur hægt að bregðast við kjötskorti á innanlandsmarkaði með tímabundnum opnum tollkvóta taki lögin gildi.



Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.
Drög að frumvarpinu birtust á samráðsgátt stjórnvalda þann tólfta júlí síðastliðinn og voru sett fram af Kristjáni Þór Júlíussyni landbúnaðarráðherra eftir skýrslu sem unnin var af fimm manna starfshópi um endurskoðun á regluverki um úthlutun tollkvóta landbúnaðarvara.

Á vef samráðsgáttarinnar kemur fram að markmið frumvarpsins sé að stuðla að auknum ábata neytenda og að aukinni samkeppni á markaði með landbúnaðarvörur. Jafnframt sé markmiðið að einfalda og skýra regluverk um úthlutun tollkvóta.

Í yfirlýsingu frá FA kemur fram að félagið telji breytta aðferð við uppboð á tollkvótum ekki gagnast neytendum til lengri tíma, úthluta eigi innflutningsheimildunum án endurgjalds.

„Við getum út af fyrir sig tekið undir það að líklegt sé að í einhver misseri eða ár verði verð fyrir tollkvótann lægra með þessari aðferð en það mun engu að síður fljótt taka breytingum til hækkunar. Við teljum að það sé miklu skynsamlegra að úthluta þessum tollkvótum án endurgjalds enda er það mun algengari aðferð,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×